fbpx
Sunnudagur 15.desember 2024
Fréttir

Ritstjóri Kastljóss biðst afsökunar á myndavali við fátæktarumræðu

Ragna Gestsdóttir
Miðvikudaginn 1. mars 2023 14:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Einkennilegt myndaval hjá Kastljós í umræðu um fátækt að einu myndirnar voru af Fellunum í Breiðholti. Bara Fellunum! Þó að það séu eflaust lægri tekjur í Fellunum þá er þetta að ýta undir fordóma sem er nóg af. Fátækt er víða og svo sannarlega á fleiri stöðum en í Fellunum,“ segir Stefanía Sigurðardóttir framkvæmdastjóri þingflokks Viðreisnar. 

Vísar Stefanía þar til Kastljóssþáttar í gærkvöldi, þriðjudag, þar sem Viktoría Hermannsdóttir ræðir við Ástu Þórdísi Skjalddal Guðjónsdóttur, talsmanns fólks í fátækt, og Hildi Oddsdóttur. Innslagið er rúmar sjö mínútur að lengd og eru útimyndatökur teknar upp í Fellahverfinu í Breiðholti.

Í færslu á Facebook segist Stefanía alin upp í Fellunum. Þar búi alls konar fólk með alls konar tekjur og þar séu íbúðir í öllum stærðum og gerðum. „Í Fellunum finnur þú íbúðir með útsýni sem fólk slefar yfir. Þú finnur ekki fjölskylduvænna hverfi. Ég gekk yfir eina götu sem var með gangbraut frá grunnskóla út menntaskóla. Held að það finnist bara í hinum enda hverfisins í Hólunum. “

„Ég er stolt af því að hafa alist upp í Fellunum og ég vona að börnin sem sáu þetta innslag og búa í Fellunum láti svona umfjöllun ekki á sig fá.“

Anna Brynja Baldursdóttir, atvinnulífstengill hjá Virk og fyrrum blaðamaður, segir í athugasemd við færslu Stefaníu: „Ég sá ekki þetta innslag en er alveg sammála þér! Það var dásamlegt að alast upp í Fellunum og það svíður 111 hjartað mitt þegar ýtt er undir fordóma þessa hluta borgarinnar.“

Fleiri taka einnig undir orð þeirra. Baldvin Þór Bergsson, ritstjóri Kastljóss, tekur til máls og biðst afsökunar á framsetningunni: „Þetta er rétt ábending. Klaufalegt hjá okkur en alls ekki illa meint. Skrifast á hugsunarleysi. Sem er svo sem engin afsökun. Við tökum okkur á. Takk fyrir ábendinguna.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt