Paul Pogba sneri loks aftur á knattspyrnuvöllinn eftir meiðsli í gærkvöldi.
Frakkinn gekk í raðir Juventus á ný frá Manchester United síðasta sumar en hafði ekki enn spilað leik fyrir ítalska félagið.
Pogba kom svo inn á í 4-2 sigri Juventus á nágrönnum sínum í Torino í gær.
Yann Karamoh kom Torino yfir strax í upphafi leiks en Juan Cuadrado jafnaði á 16. mínútu. Bæði lið skoruðu svo skömmu fyrir hálfleik. Antonio Sanabria kom gestunum í Torino yfir á ný áður en Danilo jafnaði fyrir Juventus.
Það var svo á 71. mínútu sem Bremer skoraði með skalla og kom heimamönnum í 3-2 gegn sínum gömlu félögum. Adrien Rabiot innsiglaði svo 4-2 sigur Juventus tíu mínútum síðar.
Pogba lék rúmar 20 mínútur í gær og tókst að sýna á sér sparihliðarnar.
Það setti af stað umræðu á meðal stuðningsmanna United. Margir vilja meina að miðja með Pogba og Casemiro, sem gekk í raðir félagsins í sumar, hefði orðið ógnvænleg.
Halda margir stuðningsmenn því fram að Pogba, sem lék með United frá 2016-2022, hafi ekki náð sér á strik því leikmennirnir í kringum hann hafi ekki verið nógu góðir.