Ástráður Haraldsson, settur ríkissáttasemjari í kjaradeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins, hefur ákveðið að leggja fram nýja miðlunartillögu í deilunni sem staðið hefur yfir undanfarnar vikur. Þessi tillaga kemur í stað þeirrar sem lögð var fram af fyrri ríkissáttasemjara, Aðalsteini Leifssyni. Þetta kom fram á blaðamannafundi sem Ástráður boðaði til í morgun.
Að sögn Ástráðs hefur hann náð samkomulagi við deiluaðila um að þessi nýja tillaga verði tekin til atkvæðagreiðslu hjá báðum aðilum. Atkvæðin verða greidd rafrænt á vef ríkissáttasemjara og hefst í hádeginu föstudaginn 3. mars næstkomandi og mun standa til kl.10 að morgni miðvikudaginn 8. mars og er reiknað með að niðurstöður liggi fyrir fljótlega eftir það.
Þá greindi Ástráður frá því að deiluaðilar muni fresta öllum yfirstandandi og boðuðum aðgerðum frá hádegi í dag og þar til niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.
Ástráður sagði að deilan hafi verið erfið og þakkaði aðilum hennar fyrir að sýna mikið úthald í því að reyna að leysa málið. Samkomulag sem forsvarsmenn Eflingar og SA hafi náð sín á milli hafi verið forsenda þess að Ástráði var unnt að leggja fram þessa miðlunartillaga nú.
Þá sagði Ástráður að tillagan sé í öllum verulegum atriðum eins og sú miðlunartillaga sem lögð var fram af fyrri ríkissáttasemjara. Launahækkanirnar sem í boði eru verða þær sömu og í SGS-samningnum og þá gerir tillagan ráð fyrir fullri afturvirkni samningsins til 1. nóvember. Það er tekið upp í tillögunni að það er breyting á starfsheiti fyrir almennt starfsfólk í gistihúsum og hvernig það raðast í launaflokka.