Juventus og Torino mættust í grannaslag í Serie A á Ítalíu í gær. Þar var varnarmaðurinn Bremer að mæta sínum gömlu félögum, en hann fór frá Torino til Juventus í sumar.
Yann Karamoh kom Torino yfir strax í upphafi leiks en Juan Cuadrado jafnaði á 16. mínútu.
Bæði lið skoruðu svo skömmu fyrir hálfleik. Antonio Sanabria kom gestunum í Torino yfir á ný áður en Danilo jafnaði fyrir Juventus.
Það var svo á 71. mínútu sem Bremer steig upp og skoraði með skalla. Þar kom hann heimamönnum í 3-2 gegn sínum gömlu félögum.
Adrien Rabiot innsiglaði svo 4-2 sigur Juventus tíu mínútum síðar.
Það sem vakti athygli eftir mark Bremer var að hann fagnaði vel og innilega.
Leikmenn fagna gjarnan ekki gegn sínum gömlu félögum en Bremer gat ekki leynt ánægju sinni.
Ítalskir stuðningsmenn eru gjarnan blóðheitir og vilja margir meina að kappinn hafi gengið of langt í fagnaðarlátunum.
Dæmi hver fyrir sig. Myndband af þessu má sjá hér.