Sveinn Hjörtur Guðfinnsson, markþjálfi, hefur að eigin sögn öðlast nýtt líf eftir útskrift úr markþjálfanáminu og hjáveituaðgerð sem hann fór í. Með markvissri vinnu síðastliðin þrjú ár tók Sveinn Hjörtur hugarfarið, heilsuna og líkamann í endurskoðun.
Sveinn Hjörtur var orðinn 200 kílógrömm og nánast hættur að geta gengið
Og nú er komið að næstu áskorun, að hreyfa sig daglega í marsmánuði í minnst 30 mínútur hvern dag.
„Ég fékk hvatningu frá sjúkraþjálfaranum mínum sem hefur gert þetta með vinkonum sínum. Mér fannst þetta því tilvalið og þá um leið að hvetja mig í að halda áfram lífstílsbreytninni, og hvetja aðra til að byrja rólega, því 30 mínútur á dag er góð byrjun og það í 30 daga,“ segir Sveinn Hjörtur í samtali við DV.
„Mars er tilvalinn í verkefnið og það er vor í lofti og því tilvalið að fara út og hreyfa sig markvisst.“
Sveinn Hjörtur hefur stofnað hóp á Facebook og hvetur alla til að vera með í áskorunni, sem kostar ekkert nema hreyfinguna og ánægjuna að vera með.
„Nú hafa um 70 manns gert sig klára. Aðalmálið er að byrja! Kostar ekkert, allir geta tekið þátt hvar sem er á landinu eða heiminum. Hluti af markþjálfun er að gefa af sér og hvetja aðra því allt er hægt að gera með því að setja sér markmið.“
Sveinn Hjörtur hvetur þá sem eru með að taka mynd af sér í göngutúrnum, í ræktinni, eða gönguleiðinni sem farin er eða af annarri hreyfingu sem viðkomandi tekur þátt í og deila í hópnum. „Hvetjum aðra til að koma með okkur, deilum og höfum gaman.“