Maður á fimmtugsaldri, Ívar Smári Guðmundsson, var þann 23. febrúar sakfelldur fyrir tíu brot sem hann játaði öll, og dæmdur í 8 mánaða óskilorðsbundið fangelsi.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur. Dómari taldi ekki fært að skilorðsbinda refsinguna vegna langs brotaferils Ívars. Fram kemur að hann hefur hlotið tíu refsidóma vegna m.a. auðgunarbrota, líkamsárása, umferðarlagabrota og fíkniefnabrota.
Ívar var í fréttum árið 2018 er hann var ákærður fyrir stórhættulega líkamsárás fyrir utan Subway í Hamraborg. Meðal annars fjallaði Vísir um málið. Var Ívar Smári sakaður um að hafa slegið mann með flötum lófa svo hann féll aftur fyrir sig í gangstéttina með þeim afleiðingum að hann hlaut heilablæðingu og brot í botni höfuðkúpu.
Árið 2017 var Ívar í fréttum eftir að hann hafði ásamt þremur öðrum mönnum stofnað hlutafélagið 4 Grjótharðir ehf. Tilgangur félagsins var bygging fasteigna, lánastarfsemi og annar skyldur rekstur en starfsemi þess var mjög lítil.
Brotin sem Ívar er sakfelldur eru skjalabrot, þjófnaðir, umferðarlagabrot, fíkniefnalagabrot og fjársvik. Hann var meðal annars sakfelldur fyrir að hafa í blekkingarskyni sett skáningarnúmer sem tilbeyrðu Ford Transit bíl á Renault Kango.
Hann var sakfelldur fyrir að hafa dælt eldsneyti á bíl með dælulykli í eigu annarra aðila nokkrum sinnum, fyrir að hafa stolið HP fartölvu, svörtu Sensa reiðhjóli og ýmsu fleiru.
Ennfremur var hann dæmdur fyrir að hafa haft í fórum sínum 200 kannabisplöntur sem hann ræktaði sjálfur í sölu- og dreifingarskyni.
Auk 8 mánaða fangelsis þarf Ívar að greiða 420 þúsund krónur í sekt í ríkissjóð sem og rúmlega 650 þúsund krónur í málskostnað.