Þetta sagði Ýmir Örn Finnbogason, yfirmaður viðskiptagreiningar hjá Deloitte í samtali við Fréttablaðið.
Hann sagði að fólk þurfi að vera meðvitað um þá áhættu sem fylgi því að fjármagna húsnæðiskaup með verðtryggðum lánum því verðbólgan hækki höfuðstólinn.
Hann sagði að áður en ungt fólk fer að fjárfesta í fyrstu eigninni ætti það að staldra við og reikna dæmið út frá mismunandi sviðsmyndum. Við slíka útreikninga skipti þróun fasteignaverðs og verðbólgu næstu misserin miklu máli.
Hann sagði að „svartsýn“ niðurstaða geti verið þar sem reiknað sé með að verðbólgan haldist í 9,6% næstu 12 mánuði og fasteignaverð lækki um 8%. Ef íbúð væri keypt á 50 milljónir við þessar aðstæður og verðtryggt lán með hámarkshlutfalli fyrir fyrstu kaupendur tekið, þá myndi 7,3 milljóna króna innborgun nánast hverfa á einu ári.