Rússneska varnarmálaráðuneytið segir að ekkert sé hæft í þessum ásökunum.
Sérfræðingar segja að hörð valdabarátta eigi sér nú stað á milli Prigozhin og varnarmálaelítunnar. Tveir sérfræðingar, sem hafa kafað ofan í mál Wagnerhópsins, sögðu í samtali við TV2 að það sé Prigozhin sem standi verst að vígi.
Niklas Rendboe, sérfræðingur hjá danska varnarmálaskólanum, sagði að varnarmálaráðuneytið sé orðið þreytt á sitja til borðs með Prigozhin. Nú sé verið að kasta honum í burtu eins og óhreinni tusku.
Deilur Prigozhin og ráðuneytisins ná allt aftur til 2014 en þá tóku Wagnerliðar þátt í hernámi Krím. Sergei Shoigu, varnarmálaráðherra, er þá sagður hafa verið á móti Wagnerhópnum og hafi lagt töluvert á sig til að vinna gegn hópnum.
Í byrjun febrúar kom fram að nú má Wagnerhópurinn ekki lengur fá fanga úr rússneskum fangelsum til liðs við sig. Karen Philippa Larsen, sérfræðingur í rússneskum málefnum, sagði að í hennar augum þýði þetta að valdajafnvægið sé að breytast, varnarmálaráðuneytinu í hag. „Prigozhin er orðinn of valdamikill. Margt bendir einnig til að Pútín hafi ákveðið að styðja hina hefðbundnu varnarmálaelítu frekar en Wagnerhópinn því hann hefur talað jákvætt um hana,“ sagði hún.