Flestir gítarleikarar landsins kannast við Gunnar Örn Sigurðsson gítarsmið og viðgerðarmann. Hann hefur gert við gítara um árabil og í seinni tíð smíðað hágæðahljóðfæri, auk þess að spila blús sjálfur af og til. Fjallað hefur verið um Gunnar Örn og gítarsmíði hans í innlendum sem erlendum fjölmiðlum.
Gunnar Örn gítarsmiður vekur athygli fyrir einstaka hönnun og aðferð við gítarsmíði
Gunnar Örn veiktist alvarlega síðastliðið haust og gekkst undir stóra hjartaaðgerð um jólin. Í framhaldi af því er hann óvinnufær fram á vor.
Nokkrir vina hans tóku höndum saman og efna til styrktartónleika sem fram fara á Ölveri í Glæsibæ fimmtudagskvöldið 2. mars.
„Ég og Oddur Sigurbjörnsson trommuleikari fengum hugmyndina líklega samtímis. Ég var að hugsa um þetta og var að hugsa um hvar væri hægt að halda svona þegar ég fékk póst frá Oddi,“ segir Ingvar Valgeirsson gítarleikari og verslunarstjóri hljóðfæraverslunarinnar Rín.
„Gunnar Örn gítarsmiður er jú vinur okkar og hefur þjónustað gítarleikara landsins um árabil og smíðað frábæra rafgítara sjálfur – ég á tvo sjálfur sem hann hefur smíðað og nota mikið,“ segir Ingvar.
„Gunnar vinur minn veiktist í haust og svo fór svo í stóra hjartaskurðaðgerð í árslok í fyrra og er óvinnufær fram á vor. Við vildum bara gera eitthvað fyrir hann því hann er alltaf að gera eitthvað fyrir aðra, það er bara þannig. Gunnar hefur reynst mér og öðrum gítarsláttumönnum landsins vel. Greinilegt er að fleiri eru sammála því strax voru komin fjölmörg atriði, allir vildu leggja hönd á plóg, bæði tónlistarmenn, hljóðmenn, rótarar og aðrir.“
Ingvar segir það enga nýlundu að tónlistarmenn styðji hvern annan í svona erfiðleikum, rétt eins og popparar landsins hafa stutt hin ýmsu málefni og komið fram á ótal styrktartónleikum og viðburðum.
„Viðtökurnar hafa verið góðar, enda er málefnið gott og Gunni vinamargur. Eins eru atriðin ekki af verri endanum – allt frá lágstemmdum blús yfir í urrandi rokk frá Vintage Caravan. Andri Ívars mun líka stíga á stokk með gítarleik og grín, það er vel rúmlega ógeðslega fyndið. Ég reikna í það minnsta með að salurinn í Ölveri verði þéttsetinn 2. mars.“
Hægt er að kaupa miða á tónleikana á tix.is.
Ingvar segir einnig marga hafa spurt hvort ekki sé hægt að styrkja Gunnar Örn um miðaverðið ef viðkomandi á ekki heimangengt á tónleikana. Það má leggja frjáls framlög inn á neðangreindan reikning sem er á nafni dóttur Gunnars Arnar:
Reikningur: 0115-05-010068
Kennitala: 220491-2779