Blaðamaðurinn Andrea Sigurðardóttir velti fyrir sér hvort ekki sé allt í lagi hjá Landsbankanum á Twitter í dag, en þar deilir hún innheimtubréfi sem frændi hennar var að fá vegna 100 krónu skuldar frá árinu 2006.
Í bréfinu segir meðal annars:
„Ekki hefur verið næg innistæða á þessum skuldfærslureikningi og því hefur þjónustureikningurinn þinn verið í vanskilum frá 27. 02. 2006. Samtals eru 100 kr. ógreiddar.“
Landsbankinn tók fram að þegar svona á sér stað sé ekki hægt að greiða þau útgjöld sem hafi verið skráð í greiðsluþjónustu og geti útgjöld þá farið í vanskil og þar með ýmis gjöld bæst við.
„Þessi tilkynning er send þegar reikningurinn hefur verið 30 daga í vanskilum og er innheimtur kostnaður vegna hennar upphæð 950. kr. í samræmi við verðskrá sem er aðgengileg á landsbankinn.is“
Landsbankinn svaraði tístinu og sagði að vegna mistaka hafi póstur á borð við þann sem Andrea deildi farið til lítils hóps viðskiptavina í morgun.
„Við erum að senda leiðréttingu og afsökunarbeiðni“
Sæl Andrea. Vegna mistaka fór svona póstur til lítils hóps viðskiptavina nú í morgun. Við erum að senda leiðréttingu og afsökunarbeiðni.
— Landsbankinn (@landsbankinn) February 27, 2023