Úlfur Ágúst Björnsson framherji FH verður ekki með liðinu allt tímabilið sökum náms sem hann hyggst sækja í Bandaríkjunum.
Greint var frá því í Dr. Football í gær að Úlfur Ágúst hefði ákveðið að fara í Duke háskólann í Bandaríkjunum.
„Það er ekki 110 prósent en það eru allar líkur á því,“ segir Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH við 433.is.
Úlfur er öflugur framherji sem raðaði inn mörkum fyrir Njarðvík á fyrri hluta síðustu leiktíðar en snéri svo aftur til FH.
Úlfur skrifaði undir nýjan samning við FH í vetur en nú er ljóst að hann yfirgefur liðið í byrjun ágúst til að halda út til náms.