fbpx
Miðvikudagur 17.júlí 2024
Fréttir

Tómas Logi bjargaði mannslífi fyrir jól – „Sá félagi minn allt í einu hönd“

Ragna Gestsdóttir
Sunnudaginn 26. febrúar 2023 14:00

Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Sumir fara á sjóinn eins og pabbi sinn. Ég fór í björgunarsveitina eins og mamma,“ segir Tómas Logi Hallgrímsson, 37 ára félagi í björgunarsveitinni Suðurnes í Reykjanesbæ. 

Facebook-færsla sem hann skrifaði rétt fyrir jól fór á flug á samfélagsmiðlum og skrifuðu flestir miðlar um færsluna. Tómas Logi var nýkominn heim af meira en 50 klukkutíma vakt á tæpum fjórum sólarhringum, en björgunarsveitir stóðu þá í ströngu vegna fjölmargra útkalla vegna óveðurs. Tómas Logi segir frá færslunni á vef Slysavarnafélagsins Landsbjargar. 

Tómas Logi
Mynd: Slysavarnafélagið Landsbjörg

Vaktin fyrir jól var ein stærsta björgunaraðgerð sem hann hefur tekið þátt í á 18 ára ferli í björgunarsveitum. Verkefnin voru ótalmörg og segir Tómas Logi sig ekki hafa ekki órað fyrir hvernig útkall á laugardagsmorgni kl. 10:46 rétt fyrir jól ætti eftir að vinda upp á sig.

„Þegar ég lít til baka á þessa daga fyrir jólin þá hugsa ég meðal annars um eitt atvik þar sem ég veit að við björguðum mannslífi. Við vorum að losa bíl þegar við heyrðum einhver óhljóð útundan okkur. Þá sá félagi minn allt í einu hönd og þá lá kona á kafi í snjó, liggjandi á jörðinni, grátandi og ísköld. Hún hafði ætlað að ganga heim úr vinnu og upp í Ásbrú. Þarna björguðum við mannslífi, svo einfalt er það.“

Fjölskyldurnar færa einnig fórnir

Plön fjölskyldunnar um samverustundir fóru því fyrir lítið, en Tómas Logi segir að í þetta sinn hafi þau ekki alveg farið á hliðina þar sem fjölskyldan ætlaði að verja jólunum á Spáni.

„Þetta er staðreynd sem kannski er lítið talað um. Þetta eru ekki bara við að stökkva út í brjálað veður. Fyrir okkur líður tíminn hratt en það er makinn sem er heima með börnin og þarf að svara spurningunni: „Hvar er pabbi?“ og sefa áhyggjur,“ segir Tómas Logi, sem bendir á að það eru einnig fjölskyldur björgunarsveitarfólks sem þurfi að færa fórnir.

„Skilningur fjölskyldu og maka skiptir okkur ótrúlega miklu máli, sem og skilningur og stuðningur vinnuveitenda. Ég er rafvirki og þurfti ekki einu sinni að láta yfirmanninn vita að ég kæmi ekki til vinnu því hann sá bara að ég var í útkalli. Mér var sérstaklega tilkynnt um það í vinnunni að ég héldi mínum launum þó ég færi í útköll og að ég þyrfti engar áhyggjur að hafa af því. Slíkt viðmót er auðvitað ómetanlegt og ég vona að það eigi við um sem flest björgunarfólk.“

Þolinmæðin stundum á þrotum, en þakklætið það besta

Tómas Logi nefndi í Facebook-færslunni víðförlu að viðmót flestra hafi verið gott og langflestir hafi verið skilningsríkir og samvinnuþýðir. Segir hann þó einhverja vera pirraða og þá verði allt erfiðara.

„Ófærð er erfið og hún er leiðinleg en það batnar ekkert við að fólk leyfi sér að nota einhvern fúkyrðaflaum, argast í okkur eða pirrast. Fólk er auðvitað bara að hugsa um sjálft sig og sínar þarfir og getur ef til vill ekki á þessum tímapunkti sett sig í okkar spor. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar það er búið að loka vegum á fólk að vera heima hjá sér. Svo einfalt er það. Við sáum dæmi um fólk sem komst ekki á bílnum til vinnu og þá pantaði það bara leigubíl. Sem festi sig að sjálfsögðu því það var jú ófært,“ segir Tómas Logi.

„Þegar þú ert búinn að vera vakandi og úti í meira en 18 tíma þá er þolinmæðin stundum á þrotum. Við erum bara manneskjur en við erum að sjálfsögðu að gera okkar besta.“

Tómas Logi segir að persónulega sé það þakklæti sem gefur honum mest. „Að fá að upplifa þakklætið sem við fáum frá yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem við eigum í samskiptum við. Þess vegna er ég björgunarsveitamaður. Eitt lítið takk eða bros. Það er það sem ég tek með mér heim.“

Lesa má sögu Tómasar Loga og fleiri frásagnir félaga Slysavarnafélagsins Landsbjargar hér.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi

Stóra fíkniefnamálið: Skuldaði höfuðpaurnum tíu milljónir og fór í örlagaríka ferð með skemmtiferðaskipi
Fréttir
Í gær

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump

J.D. Vance verður varaforsetaefni Donald Trump