Aðfararnótt sunnudags var þokkalega erilsöm hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, en þrír gista fangageymslur eftir nóttina.
Stöð 3 sem sinnir Breiðholti og Kópavogi fékk tilkynningun um að farþegi hafi ráðist á leigubílstjóra og farið svo í burtu án þess að greiða fyrir farið.
Maður með gasgrímu var æstur og ógnandi í hverfi 104. Lögreglan var kölluð til vegna unglingasamkvæmis í sama hverfi og þar var eitthvað um slagsmál og hita í hópnum. Tilkynnt var um líkamsárás í hverfi 103, en þolandi hlaut ekki alvarlega áverka. Tilkynnt var um aðra líkamsárás í hverfi 101, einn slasaður þó ekki alvarlega.
Maður í annarlegu ástandi lét öllum látum á gistiheimili í hverfi 105. Hótaði hann lögreglumönnum sem komu á vettvang og gistir hann nú fangageymslu lögreglu. Sjónarvottur tilkynnti að hann hefði séð mann kasta bakpoka undir bifreið í miðbænum og forðað sér í burtu. Lögregla fór og fann bakpokann sem reyndist vera fullur af áfengi.