„Málið er komið í þann farveg að það þarf að kljást um það hvort Transavia beri að borga okkar manni 53.960 krónur vegna flugs sem er aflýst þann 24. júlí árið 2019,“ segir Ómar R Valdimarsson, lögmaður manns, sem gerir kröfu til flugfélagsins Transavia Airlines um endurgreiðslu fargjalds vegna flugs til Hollands sem féll niður árið 2019.
Dómur hefur áður fallið í málinu flugfélaginu í óhag, sem fékk það endurupptekið. Verður fyrirtaka í málinu hjá Héraðsdómi Suðurlands þann 8. mars næstkomandi.
Ómar, sem rekur málið fyrir manninn undir merkjum vettvangsins flugbætur.is, segir að útivistardómur hafi fallið í málinu í september 2022:
„Málið er sem sagt þannig vaxið, að okkar umbjóðandi lendir í því að fluginu hans er aflýst án fyrirvara í júlí 2019. Við sendum svo Transavia kröfubréf í september sama ár. Því bréfi er aldrei svarað, þannig að við stefnum málinu. Það tekur nokkuð langan tíma að stefna þessum málum, þar sem við þurfum að þýða stefnuna yfir á hollensku og láta birta í Hollandi. Svo loksins er málið þingfest í september síðastiðnum. Transavia mætir ekki og málið er dæmt sem útivistarmál.“
Ómar lýsir því síðan að þegar hann hóf að krefjast málskostnaðar af hendi flugfélagsins og freistaði þess að innheimta kröfuna hafi Transavia fengið málið endurupptekið.
„Skilyrði til endurupptöku eru tiltölulega væg, þannig að það næst í gegn, án þess að við andmælum því eitthvað sérstaklega,“ segir Ómar. Hann bætir við að Transavia standi frammi fyrir erfiðri sönnunarbyrði í málinu:
„Transavia þarf að sanna að félagið hafi gert allt sem í þeirra valdi stóð til þess að okkar viðskiptavinur kæmist á leiðarenda. Þannig að sönnunarbyrðin er nokkuð ströng. Og það er hreint ótrúlegt að þeir skuli ákveða að fara í þessa vegferð vegna annarra eins smáaura.“
Vísað er til sönnunarbyrðinnar í stefnu málsins, en kveðið er á um hana í reglugerð ESB frá 2004. Samkvæmt ákvæðinu þarf flugrekandinn að færa sönnur á að flugi hafi verið aflýst af völdum óviðráðanlegra aðstæðna sem ekki hafi verið hægt að afstýra jafnvel þótt gerðar hefðu verið allar nauðsynlegar ráðstafanir.
Í stefnunni er bent á að umræddri ESB-reglugerð sé ætlað að tryggja ríka vernd fyrir farþega sem neytendur flugþjónustu. Meginreglan samkvæmt henni sé réttur farþega til skaðabóta sé um að ræða aflýsingu eða mikla seinkun á brottfarartíma flugs.