Maður sem var á göngu í tónlistarhúsinu Hörpu í dag féll við með þeim afleiðingum að hann hlaut beinbrot á fæti. Var hann fluttur á slysadeild til aðhlynningar. Atvikið var tilkynnt til lögreglu laust fyrir kl. 14 í dag.
Frá þessu segir í dagbók lögreglu og einnig frá því að umferðarslys varð á Hafnarfjarðarhöfn um hálftvöleytið í dag. Þar var lyftara ekið á bíl. Ökumaður lyftarans reyndist ekki hafa réttindi til að vinna á vinnuvél á opnu svæði.
Um ellefuleytið í morgun var tilkynnt um innbrot í verslun í Kópavogi. Ekki er vitað hverju var stolið en eigendur eru að vinna í því að afla upplýsinga um það. Málið er sagt vera á frumstigi rannsóknar.
Um tíuleytið í morgun var tilkynnt um að ekið hefði verið á bíl í Vesturbæ Reykjavíkur. Tjónvaldur ók síðan á brott en fannst stuttu síðar og viðurkenndi brot sitt.