Karl Reynir Einarsson, formaður Geðlæknafélags Íslands, segir að umræðan um hugvíkkandi lyf sé á villigötum. Hann segir jafnframt að vonandi muni enginn geðlæknir á Íslandi samþykkja að taka þátt í rannsóknum þar sem föngum eru gefin slík lyf.
Þetta kemur fram í aðsendri grein á Vísi. Karl segir að rannsóknir bendi til að ein tegund hugvíkkandi efna geta mögulega gagnast við meðferð geðraskana í framtíðinni en sá tími sé ekki kominn. Karl skrifar:
„Umræðan um hugvíkkandi efni er að sumu leyti snúin og getur verið erfitt að orða hlutina rétt svo þeir misskiljist ekki. Hugvíkkandi efni eru nokkur, en það sem mest hefur verið í umræðunni undanfarið er efnið sílósíbín (psilocybin). Ástæðan er sú að til eru rannsóknir sem benda til þess að efnið geti mögulega verið gagnlegt í meðferð sumra geðraskana eins og t.d. þunglyndi.
Áður en lengra er haldið er þó rétt að árétta eftirfarandi: Út frá þeirri þekkingu sem fyrir hendi er í dag er ekki hægt að mæla með notkun sílósíbíns við geðröskunum nema í rannsóknarskyni eða mögulega í algjörum undantekningartilvikum þar sem aðrar gagnreyndar meðferðir hafa reynst árangurslausar. Í þessum tilvikum myndi þurfa sérstök leyfi frá til þess bærum aðilum og meðferð undir þessum formerkjum hefur ekki verið í boði á Íslandi.“
Karl bendir á að notkun lyfja til að komast í vímu sé allt önnur athöfn en læknisfræðileg notkun. Umræðan sé komin í ógöngur:
„Það er því miður svo að umræðan um sílósíbin er komin út á villugötur. Það er eitt að nota efni til að komast í vímu og annað að nota efni í meðferðarlegum tilgangi. Rítalin er t.d. notað við athyglisbresti og gagnast mörgum, jafnvel umbreytt lífi þeirra, en það er líka misnotað, oft með hörmulegum afleiðingum.
Það að fara upp í sumarbústað og innbyrða sveppi með vinum sínum er ekki læknisfræðileg meðferð. Það að fara til heilbrigðisstarfsmanns þar sem sílósíbín er notað í meðferð ásamt samtalsmeðferð verður hins vegar hugsanlega viðurkennt úrræði í framtíðinni í vel völdum tilfellum. Það er þó alls ekki víst. Mörg lyf og meðferðir hafa um tíðina virst gagnlegar í upphafi rannsókna en síðan reynst ekki vera það. Tíminn einn mun leiða þetta í ljós.“
Karl segist fylgjast af eftirvæntingu með þeim rannsóknum sem nú eru gerðar varðandi hugvíkkandi lyf en enn sé mikil óvissa um gagnsemi þeirra. „Það er vandasamt að framkvæma rannsóknir á sílósíbini hjá veikum einstaklingum og margt sem getur orðið til þess að efnið virðist hjálplegt þegar það er það e.t.v. ekki í raun og veru. Þess vegna þarf margar og stórar rannsóknir.“