Morgunblaðið staðhæfir að brotthvarf Guðmundar Þ. Guðmundssonar úr starfi þjálfara karlalandsliðsins í handbolta hafi ekki verið sameiginleg ákvörðun, eins og HSÍ hefur tilkynnt, heldur hafi Guðmundur verið látinn hætta.
Tilkynnt var um brotthvarf Guðmundar í síðustu viku en hann hefur þjálfað liðið samfleytt frá árinu 2018. Liðið náði sjötta sæti á EM í Ungverjalandi 2022 en aðeins 12. sæti á nýafstöðnu HM-móti í Svíþjóð og Póllandi. Áður hefur Guðmundur náð að vinna Ólympíusilfur og EM-brons sem þjálfari Íslands, eins og alkunna er.
Samkvæmt Morgunblaðinu eru ástæðurnar fyrir brottrekstri Guðmundar tvíþættar, annars vegar slakur árangur liðsins á HM og hins vegar samstarfsörðugleikar. Í fréttinni segir:
„Heimildir mbl.is herma að bæði meðlimir í landsliðsnefnd HSÍ og leikmenn liðsins hafi viljað ljúka samstarfinu árið 2021, eftir að heimsmeistaramótinu í Egyptalandi lauk. Þess í stað var ákveðið að framlengja samning þjálfarans í tvígang.
Andrúmsloftið í herbúðum íslenska liðsins hefur ekki verið gott á síðustu stórmótum og var samband hans við leikmenn og aðra innan HSÍ komið í þann farveg að því var ekki viðbjargandi.“
Leit HSÍ að nýjum landsliðsþjálfara hefst í næstu viku.