Dreymir þig um alvöru sælkeratúr um ítölsk vínhéruð í sumar? Leiðangur um gullfallegt fjalllendi? Ekta óperuupplifun og menningarferð? Eða fjörugt ferðalag um hið óviðjafnanlega Gardavatn?
Heimsferðir kynna glænýjar sérferðir í sumar þar sem Ítalía er í algleymingi og ólíkar hliðar hennar eru kannaðar með reynslumiklum fararstjórum. Fimm nýjar og glæsilegar sérferðir til Ítalíu bætast nú við ferðakonfektkassa Heimsferða.
„Ferðirnar eru stórskemmtileg viðbót við sérferðir Heimsferða og eru allar mjög ólíkar að upplagi. Ein er svona ekta menningar- og listaferð, ein er það sem ég kalla „Smakkrölt- og hreyfiferð“, ein er alvöru hreyfiferð og svo eru tvær ferðir í júní þar sem gist er við Gardavatn og ferðast um ólíka bæi við vatnið,“ segir Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, fararstjóri í þremur af nýju sérferðunum. Ágústa segir að sú staðreynd að Heimsferðir fljúga nú í sumar beint til Veróna, í samstarfi við ítalskt flugfélag, hafi gefið þeim kost á að bjóða upp á þessar fimm glæsilegu sérferðir sem um ræðir. Ferðirnar verða kynntar nánar á Zoom-fundi fimmtudagskvöldið 23. febrúar klukkan 20:00.
Að sögn Ágústu er um að ræða einstaklega vel heppnaðar sérferðir sem munu slá í gegn. „Þær eru líka allar svo ólíkar og það geta allir fundið eitthvað við sitt hæfi,“ segir hún.
Þann 18. – 27. ágúst verður farið í einstaklega glæsilega níu nátta tónlistar- og menningarferð til hinnar fögru Verónu og Garda. „Þetta er lengsta ferðin af sérferðunum fimm. Fyrstu nóttina gistum við í Veróna og því fáum við tvo daga til að skoða okkur þar um og kynnast staðháttum og sögu borgarinnar nokkuð vel. Hinum átta nóttunum verjum við svo í bænum Garda við Gardavatn.
Hér er verið að stíla inn á tónleika í Arena, sem er rómverskt hringleikahús frá 1. öld f.kr. þar sem sýningar fara fram undir berum himni. Í ár er haldið upp á 100 ára afmæli Óperulistahátíðarinnar, sem var stofnuð í Arenu þegar hringleikahúsið fékk nýtt hlutverk sem tónleika- og viðburðahöll.
Ýmislegt bitastætt er í boði á tímabilinu og má meðal annars nefna tónleikana með Jonas Kaufmann sem allir þátttakendur ferðarinnar fara að sjá og svo óperan AIDA. En fyrir þá sem ekki þekkja er um að ræða eina af frægustu óperum heims þar sem öllu er til tjaldað og fílar hafa stundum fengið að valsa um sviðið.
„Ef fólk er með óperudellu á háu stigi er hægt að bóka sig á fleiri viðburði.“
Í ár verður sett upp ný uppfærsla á óperunni með nýrri sviðsetningu og nýjum leikstjóra. Sjálf hef ég farið þrisvar á AIDU í Arenunni og er einstaklega spennt að sjá þessa nýju útgáfu.
Ef fólk er með óperudellu á háu stigi er hægt að bóka sig á fleiri viðburði,“ segir Ágústa og hlær. Hægt er að tryggja sér miða á heimasíðu Arena og afgangsmiðar eru oft seldir fyrir utan.
Hér er um að ræða fullkomna ferð fyrir sælkera sem vilja vinna aðeins fyrir hitaeiningunum. Gist er í bænum Bassano del Grappa sem staðsettur er mitt á milli Veróna og Feneyja og er þekktur fyrir að vera bærinn þar sem grappan var fundin upp.
„Þetta er svona ekta ferð til að lifa og njóta, smakka og drekka.“
„Það má segja að við fáum hér Basano del Grappa beint í æð, upp í munn og ofan í maga. Við förum í ýmsar skemmtilegar röltferðir með og án asna (dýrategundinni ekki manngerðinni) og stutta hjólatúra á jafnsléttu í hlíðunum rétt hjá bænum. Þetta eru hinar frægu Prosecco hlíðar þar sem ítalska freyðivínið er upprunnið. Einnig förum við á námskeið í að gera Aperol Spritz og margt fleira. Þetta er svona ekta ferð til að lifa og njóta, smakka og drekka.
Virðisaukinn við að fara í svona sérferð með fararstjóra algerlega ómetanlegur, en það gildir nú svo sem um allar utanlandsferðir. Þau sem hafa upplifað að fara í ferð með góðum fararstjóra vita að þar liggur að baki nánast trygging fyrir því að missa ekki af neinu. Þú færð upplifunina beint í æð og einstaka tengingu við sögu staðarins, og fararstjórinn deilir með farþegum reynslu sinni og þekkingu,“ segir Ágústa og bætir við: „Á Ítalíu er það nú bara þannig að maður fær betri þjónustu ef maður talar ítölsku og við fararstjórarnir erum með gott lag á að pota og framkalla það sem hinn almenni ferðamaður fær kannski ekki að upplifa.“
Fyrir þau sem vilja leggja aðaláhersluna á hreyfinguna þá steinliggur gönguferð uppi á hásléttunni fyrir norðan Gardavatn.
„Að sumri til er þetta einstaklega fallegt svæði með ríka sögu.“
„Margir Íslendingar þekkja svæðið af eigin raun en fæstir hafa séð það að sumarlagi, enda er um að ræða eitt vinsælasta skíðasvæði Ítalíu. Að sumri til er þetta einstaklega fallegt svæði með ríka sögu. Það er skemmtilegt að ganga þar um og fræðast í leiðinni um þá atburði sem áttu sér þar stað í fyrri heimsstyrjöldinni. Þau sem hafa skíðað þarna að vetri til ættu að hafa einstaklega gaman af því að sjá svæðið í sumarskrúðanum.
Gist er í bænum Folgaria sem er í um 1100 metra hæð og farið er á rafhjólum og gangandi hálfu og heilu dagana um svæðið í kring. Í einni heilsdagsgöngunni er 600 metra hækkun svo hér er um að alvöru hreyfiferð fyrir fólk í þokkalegu formi. Að sjálfsögðu sníðum við þó ferðina að þátttakendum hverju sinni. Svo verður minnst einn frjáls dagur þar sem fólk getur komið sér fyrir við sundlaugabakkann og hvílt sig, skráð sig í nudd eða farið í göngu á eigin vegum.“
Gaman við Garda (25. júní-2. júlí) og Draumur í Desenzano við Garda (11.-18. júní) eru svo tvær sérferðir sem farnar verða í júní. „Hér er um að ræða nokkuð áþekkar ferðir þar sem gist er annars vegar í bænum Garda við Gardavatn, og hins vegar Desenzano við vatnið, en um er að ræða tvo af uppáhalds bæjum Íslendinga við Gardavatn. Farið verður í ýmsar dagsferðir og siglingar til þess að kynnast bæjunum í kringum löginn fagra.
Gardavatn er staður sem allir elska og þangað er hægt að koma aftur og aftur og uppgötva nýja og spennandi staði í hverri ferð. Landslagið, gróðurinn og fögur fjallasýn ramma svo inn þetta stærsta stöðuvatn á Ítalíu. Það er allavega víst að það verður enginn ósnortinn af fegurð Gardavatns.“
Ágústa hóf fararstjóraferilinn fyrir um tuttugu árum þegar hún réði sig sem fararstjóra á Rimini í Ítalíu. „Fararstjórnin er ekki vinna mín að staðaldri heldur áhugamál sem hefur orðið sífellt tímafrekara með árunum. Ég stundaði líka nám á Ítalíu, vann þar til lengri tíma og bjó um skeið. Ég velti stundum fyrir mér að ég hljóti að hafa átt einhver fyrri líf þarna á Ítalíu því ég ber alltaf hlýjar tilfinningar þangað. Það má eiginlega segja að Ítalía sé hin ástin í lífi mínu,“ segir Ágústa sem heldur úti stórskemmtilegu ferðabloggi um Ítalíu. Þar segir hún frá ýmsu fróðlegu um land og þjóð og skrifar um þá staði sem hún fararstýrir á með Heimsferðum.
„Við munum kynna sérferðirnar fimm á fimmtudagskvöldið 23. febrúar klukkan 20:00 á Zoom-fundi. Hægt er að skrá sig á Facebook viðburðinum: Ferðakynning á ferðum til Ítalíu eða í gegnum skráningarhlekkinn. Það er engin skuldbinding að skrá sig en þau sem það gera, fá afslátt þegar þau bóka sig í eina af sérferðunum fimm. Einnig fær fólk hlekk á Zoom-fundinn þar sem ferðirnar eru kynntar.
„…ég mæli með að fá sér smá Prosecco eða grappa í staup til að sötra með.“
Þátttakendur eru ekki í mynd og því er um að gera að koma sér vel fyrir við tölvuna í kósýgallanum og ég mæli með að fá sér smá Prosecco eða grappa í staup til að sötra með,“ segir Ágústa og hlær.