fbpx
Miðvikudagur 11.desember 2024
Pressan

Læknirinn sem komst á toppinn með meintum æskubrunni sínum – Græddi eistu úr öpum í menn fyrir fúlgur fjár

Pressan
Þriðjudaginn 21. febrúar 2023 22:24

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Það vakti eðlilega mikla athygli árið 1923 þegar læknirinn Serge Voronoff hélt erindi á alþjóðlegri ráðstefnu skurðlækna í London. Hann var á þeim tíma orðinn umtalaður fyrir nýja og framúrstefnulega meðferð sem hann sagði geta lengt lífið og dregið úr áhrifum öldrunar. Og hvernig ætli sú meðferð hafi verið? Jú hann græddi eistu úr öpum í menn. Á ráðstefnunni sýndi hann fyrir og eftir myndir teknar af sjúklingum sem höfðu undirgengist þessa ígræðslu með góðum árangri. Voronoff öðlaðist í kjölfarið frægð og frama, en fallið er hátt þegar maður er kominn á toppinn og þegar hann lést vildu fáir kannast við að hafa ljáð honum stuðning sinn.

Lærði hjá nóbelsverðlaunahafa

En hver var þessi læknir? Serge Voronoff fæddist árið 1866 í Rússlandi. Hann yfirgaf þó Rússland 18 ára gamall til að nema læknisfræði í París. Þar hitti hann þekkta franska skurðlækninn Alexis Carrel sem fékk nóbelsverðlaunin í læknisfræði fyrir tækni sína við að sauma saman æðar. Voronoff gerðist lærlingur hans og lærði um ígræðslur. Hann varð í kjölfarið heillaður af þeim möguleikum sem í ígræðslum fólust og horfði hann þá sérstaklega til dýraríkisins.

Árið 1889 hóf Voronoff að starfa með lífeðlisfræðingnum Charles-Édouard BrownSéquard, sem hafði einnig áhuga á möguleikunum sem fólust í dýraríkinu, þá sérstaklega í hormónum þeirra. BrownSéquard framkvæmdi tilraunir á sjálfum sér með því að sprauta undir húð sína efni sem innihélt mulin hunda- og naggrísaeistu. Þessar tilraunir skiluðu þó ekki tilætluðum árangri og taldi Voronoff að vefjaígræðsla væri líklegri til árangurs.

Árið 1896 flutti Voronoff til Egyptalands þar sem hann rannsakaði geldinga og hvaða áhrif það hefði á þá að hafa engin eistu. Voronoff skráði hjá sér að geldingarnir væru gjarnan í yfirþyngd, væru með aumari vöðva, hægari í hreyfingum og glímdu við minnistruflanir og lægri greind. Taldi hann þetta skýrast af skortinum á eistum.

Hann sneri aftur til Frakklands árið 1910 og ákvað þá að halda tilraunum sínum áfram. Hann byrjaði á að prófa að græða bein, líffæri og vef á milli dýrategunda. Hann fékk í kjölfarið þá hugmynd að apar væru fullkomnir í tilraunir á mannfólki, enda væru þeir svo líffræðilega skyldir manninum.

Svo fór á endanum að Voronoff fékk þá hugmynd að græða eistu úr öpum í menn og taldi hann að með því væri hægt að snúa líffræðilegu klukkunni afturábak.

Eistu úr öpum allra meina bót

Árið 1920 framkvæmdi Voronoff fyrstu ígræðsluna af þessu tagi á manni, en um var að ræða 74 ára gamlan mann sem glímdi við elliglöp. Voronoff tók eistu úr apa og skar niður í strimla sem hver og einn voru nokkrir sentimetrar að breidd og nokkrir millimetrar að þykkt. Voronoff festi svo þennan vef í pung sjúklingsins. Þar sem eistun höfðu verið sneidd svo smátt þýddi þetta að nýji vefurinn gat gróið saman við mennska vefinn.

Voronoff hélt því fram að þessi aðgerð hefði ekki bara endurheimt orku og hreysti æskunnar heldur líka læknað elliglöp og bætt minni. Voronoff hélt því einnig fram að aðgerð að þessu tagi gæti læknað andleg veikindi á borð við geðklofa.

Árið 1923, á áðurnefndri ráðstefnu, kynnti Voronoff niðurstöður tilrauna sinna og sýndi hvernig sjúklingar hans hefðu yngst upp við meðferðina. Eðlilega heillaði þessi meðferð margra, ekki bara vegna yngjandi áhrifa hennar heldur líka þar sem Voronoff greindi frá því að ígræðslan gæti læknað getuleysi. Voru því um 45 læknar sem ákváðu að hefja aðgerðir að þessu tagi á sínum eigin stofum. Á næstu árum er talið að um 2000 ígræðslur hafi verið framkvæmdar víða um heiminn. Þó líklega hvergi eins margar og í Frakklandi.

Til að ráða við eftirspurnina keypti Voronoff kastala á Ítalíu þar sem hann ræktaði apa. Eignin varð þekkt sem Voronoff kastalinn og mátti þar finna lítið sjúkrahús þar sem Voronoff gat framkvæmt aðgerðirnar sínar.

Það voru ekki bara karlmenn sem leituðu til Voronoffs. Hann hafði einnig grætt eggjastokka úr öpum í konur í von um að endurheimta æskuljóma þeirra. Voronoff hélt því fram að hann hefði grætt eggjastokka í 48 ára brasilíska konu og fjórum mánuðum síðar hefði hún verið búin að missa 16 kíló, vöðvar hennar orðnir mikið sterkari og húð hennar endurheimt teygjanleika sinn og ljóma. Hann hafi svo hitt þessa sömu konu tveimur árum síðar og hún hafi þá litið út fyrir að vera 35 ára.

Voronoff reyndi líka að græða eggjastokka úr konu í apa og í kjölfarið að frjóvga apann með mennsku sæði. Það gekk þó ekki eftir.

Mynd/Getty

Fallið af toppnum var hátt

Voronoff naut mikillar velgengni og lifði hátt, enda kostaði ígræðslan töluverðan pening og var það helst á færi yfirstéttarinnar að gangast undir slíka aðgerð. Voronoff bjó á heilli hæð á einu dýrasta hóteli Parísar umkringdur einkabílstjórum, þjónum, aðstoðarfólki og riturum. Lífið var ljúft og Voronoff var á toppi tilverunnar. Hann tók sig samt alvarlega sem vísindamann og þegar sjúklingar hans fóru að eldast, afskrifaði hann það sem svo að vefurinn sem hann hefði grætt í þá væri orðinn óvirkur. Hafði hann svo mikla trú á sinni eigin meðferð að hann taldi að eftir aðeins eina slíka gæti fólk orðið allt að 140 ára gamalt.

Aðgerð Voronoff byggði á því að það væri dularfull kirtlastarfsemi í eistunum. Það var svo árið 1935 sem testósterón var einangrað í fyrsta sinn og fóru þá margir að setja spurningarmerki við aðferðir Voronoffs.

Það fór svo lítið fyrir lækninum næstu árin. Hann flúði til Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldinni, en var þó kallaður heim til Frakklands árið 1939 til að starfa sem skurðlæknir. Eftir stríðið sneri hann aftur í kastala sinn bara til að komast að því að hann hafði verið sprengdur niður. Hann var þó staðráðinn í að endurbyggja hann. Voronoff lét svo lífið árið 1951. Hann var þá enn ríkur en hafði verið útskúfað úr vísindasamfélaginu. Hann hafði ekki framkvæmt yngingarvísindi sín á sjálfum sér, þó svo hann hafi oft lýst því yfir að hann myndi gera svo ef þörf væri á því.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Pressan
Fyrir 2 dögum

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann

Maðurinn sem sagði „þinn líkami, mitt val“ handtekinn – Spreyjaði piparúða á 57 ára gamla konu sem vildi bara ræða við hann
Pressan
Fyrir 2 dögum

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar

Morðið á moldríka forstjóranum – Lögregla birtir nýjar myndir, fjölmiðlar misskildu borgarstjóra og Monopoly-seðlar vekja upp spurningar
Pressan
Fyrir 2 dögum

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi

Þessu máttu ekki sleppa ef þú vilt lifa lengi
Pressan
Fyrir 2 dögum

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni

Læknir segir að þess vegna eigi fólk að drekka heitt vatn á hverjum morgni
Pressan
Fyrir 3 dögum

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli

Hann naut trausts æðstu ráðamanna en undir fáguðu yfirborðinu leyndist skrímsli
Pressan
Fyrir 3 dögum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum

Þess vegna á nætursvefninn ekki að vera undir sjö klukkustundum
Pressan
Fyrir 4 dögum

105 ára segir þetta vera lykilinn að langlífi

105 ára segir þetta vera lykilinn að langlífi
Pressan
Fyrir 4 dögum

Hversu oft áttu að skipta á rúminu þínu?

Hversu oft áttu að skipta á rúminu þínu?