Það fór vond tilfinning um eldheitan stuðningsmann Newcastle United á dögunum þegar að hundur hans reif í sundur og át miða hans á langþráðan úrslitaleik sem félagið tekur þátt í þegar úrslitaleikur enska deildarbikarsins milli Newcastle United og Manchester United fer fram á Wembley.
Úrslitaleikur liðanna fer fram á sunnudaginn næstkomandi en greint er frá raunum stuðningsmannsins á vefsíðu Football Joe.
Fyrr á þessum örlagaríka degi hafði Alan Carling, stuðningsmaður Newcastle United horft á lið sitt lúta í lægra haldi gegn Liverpool á heimavelli í ensku úrvalsdeildinni. Þó svo að úrslitin ein og sér hafi verið afar slæm fyrir Alan, bætti það ekki úr skák að einn af bestu leikmönnum Newcastle á tímabilinu, markvörðurinn Nick Pope var rekinn af velli með rautt spjald.
Dagur Alans átti hins vegar eftir að taka stefnu til hins enn verra þegar að hann sneri aftur til síns heima að kvöldi til þennan umræddan dag.
Við heimkomuna blasti ófögur sjón við Alan, hann sá hund sinn tæta í sundur miðann á úrslitaleikinn í enska deildarbikarnum en hann hafði borist í hús í gegnum bréfalúguna fyrr um daginn.
Reikna verður hins vegar með því, eins slæm og þessi saga lítur út fyrir að vera, að hægt verði að redda miðanum fyrir Alan.
Hann sá spaugilegu hliðina á þessum málavendingum og setti inn færslu á samfélagsmiðlum í gríni þar sem hann sagði frá raunum sínum og setti hund sinn á sölu.
Skjáskot