„Zelenskyy og Úkraínumenn fá mikið lófaklapp en ekki nóg af skotfærum, sem er ákveðin þversögn,“ sagði Josep Borrell, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, fyrir fundinn.
Hann sagði mikilvægt að gripið verði strax til aðgerða til að bæta streymi vopna og skotfæra til Úkraínumanna.
Eistland hefur lagt til að ESB-ríkin sjái í sameiningu um þessi innkaup og það styður Borrell.
Úkraínumenn vilja gjarnan fá nýjar birgðir af skotfærum eins fljótt og hægt er og ESB vill gjarnan senda þau. En þrátt fyrir það eru ákveðin vandamál við að etja.
TV2 hefur eftir hernaðarsérfræðingum að mörg vandamál séu uppi við að afhenda Úkraínumönnum sprengiefni, skotfæri og vopn. Þessi vandamál eru í hnotskurn þrjú:
Stór og flókinn vopnaiðnaður
Ónóg framleiðslugeta
Skortur á lagerplássi og hráefnum
Það hefur sýnt sig síðasta árið að það er erfitt að koma skotfærum til úkraínska hersins. Jacob Kaarsbo, sérfræðingur hjá dönsku hugveitunni Tænketanken Europa, sagði í samtali við TV2 að það hafi legið ljóst fyrir mánuðum saman að framleiðsla Vesturlanda á vopnum og sérstaklega skotfærum væri ekki nægilega mikil til að anna þörfum úkraínsku hermannanna.
„Á einhverjum tímapunkti verður maður uppiskroppa og hefur ekkert til að skjóta með. Það er slæmt miðað við stöðuna í Úkraínu,“ sagði hann.
„Evrópa var tekin með buxurnar á hælunum,“ sagði Hans Peter Michaelsen, hernaðargreinandi, sem sagði að vopnaiðnaðurinn eigi erfitt með að framleiða nægilega mikið. Hann framleiði eingöngu samkvæmt pöntunum og eyði ekki háum fjárhæðum í að framleiða vopn og skotfæri til að eiga á lager. Þess utan sé erfitt að fá nauðsynleg hráefni til framleiðslunnar.