Gary Neville, Manchester United goðsögn og sparkspekingur, segir að hann geti ekki sett sig á móti því að eigendur frá Katar kaupi Manchester United.
Hinn katarski Sheikh Jassim Bin Hamad Al Thani vill eignast United og lagði fram tilboð fyrir helgi. Al Thani er forstjóri QIB-bankans og hluti af konungsfjölskyldunni.
Einhverjir hafa gagnrýnt það að Katarar gætu eignast United en Neville segir það erfitt.
„Við getum rætt það að Manchester United verði í ríkiseigu en við erum nú þegar með tvo ríkisrekna klúbba í Newcastle og Manchester City. Þeim var leyft að koma inn svo það er erfitt að segja að það megi ekki í tilfelli United,“ segir Neville.
„Ný viðmið voru sett þegar Abú Dabí kom inn í Man City fyrir fimmtán árum og þegar Sádi-Arabía kom inn í Newcastle fyrir tveimur árum.“