Um langt árabil hefur Gallup mælt traust til ýmissa stofnana þjóðfélagsins en í vikunni sem leið var greint frá niðurstöðum nýjustu mælingarinnar. Sem fyrr njóta helstu samkundur kjörinna fulltrúa afar lítils trausts, aðeins fjórðungur ber mikið traust til Alþingis og dregst traustið umtalsvert saman milli ára. Borgarstjórn er í botnsæti listans. Aðeins þrettán af hundraði svara því aðspurðir að þeir beri mikið traust til þeirrar samkundu. Könnunin gefur líka til kynna að almenningur treysti illa ýmsum undirstofnunum framkvæmdavaldsins. Hér birtist því ekki einasta vantraust á stjórnmálunum heldur að nokkru marki líka á embættismannakerfinu.
Forystumenn eftirstríðsáranna
Ef við lítum til sögunnar þá var sú skipan víðast hvar við lýði fram til loka fyrri heimsstyrjaldar að stjórnmálamenn, æðstu embættismenn og diplómatar hins vestræna heims (líkt og víðast hvar annars staðar) voru nær eingöngu valdir (eða kjörnir) úr hópi aðals eða annarra forréttindastétta. Þessi gamla skipan hrundi í heimsstyrjöldinni fyrri líkt og Winston Churchill, fyrrv. forsætisráðherra Breta, rakti skilmerkilega í fyrsta bindi stríðsárasögu sinnar, sem ber heitið The Gathering Storm. Ekki leið á löngu uns alræðisöflin höfðu að stórum hluta fyllt upp í tómarúmið sem skapast hafði við fall hinna gömlu valdastétta og önnur heimsstyrjöld braust út.
Henry Kissinger, fyrrv. utanríkisráðherra Bandaríkjanna, er á hundraðasta aldursári en í fyrra kom út bók hans Leadership sem fjallar um sex þjóðarleiðtoga eftirstríðsáranna sem hann kynntist í störfum sínum, menn sem höfðu afgerandi áhrif á þróun alþjóðamála. Kissinger notast við hugtakið „seinna þrjátíu ára stríðið“ um árin frá því að fyrri heimsstyrjöldin braust út þar til þeirri síðari lauk. Í kjölfar seinna stríðs varð til ný forysta í stjórnmálum flestra ríkja Vestur-Evrópu sem var einkum sprottinn upp úr miðstétt. Flestir þessara stjórnmálamanna höfðu verið afburðarnámsmenn og hlotið víðtæka klassíska húmaníska menntun. Í stað aristokrati varð til meritokrati, en slíkt var gerlegt í krafti aukins jafnréttis til náms í hinum bestu skólum.
Þeir þjóðarleiðtogar sem eru viðfangsefni rannsóknar Kissingers áttu það allir sammerkt að tala tæpitungulaust og hefðu trauðla látið stjórnast af niðurstöðum skoðanakannana eða rýnihópa — líkt og svo algengt er um stjórnmálamenn í okkar samtíma.
Einn þeirra sem Kissinger gerir að umtalsefni, Konrad Adenauer, fyrsti kanslari þýska sambandslýðveldisins, var til dæmis ófeiminn að horfast í augu við staðreyndir máls þó svo að þær kynnu að vera óþægilegar. „Hverjir haldið þið að hafi eiginlega tapað styrjöldinni?“ spurði hann eitt sinn í ræðu á sambandsþinginu í Bonn þegar þingheimur lýsti óánægju sinni með skilyrði þau sem bandamenn höfðu sett Vestur-Þjóðverjum. Líkt og fleiri afburðarforystumenn eftirstríðsáranna var Adenauer raunsær í sinni pólitík samhliða því sem hann hafði skýra sýn til framtíðar. Þýska efnahagsundrið varð að veruleika og víðast hvar í hinum vestræna heimi varð lífskjarabylting á árunum eftir síðari heimsstyrjöld. Milljónir risu úr fátækt til bjargálna á sama tíma og tókst að tryggja efnahagslegan stöðugleika.
Hnignun klassískrar menntunar
Kissinger álítur að ýmis þau skilyrði sem gátu stuðlað að framgangi afburðarforystumanna eftirstríðsáranna séu ekki lengur til staðar — alltént ekki í sama mæli og fyrr. Hann telur að færri sækist eftir að komast í opinbera þjónustu af þjóðhollustu eða köllun nú en áður. Aðrar hvatir ráði fremur för. Háskólar Vesturlanda ali af sér frábæra sérfræðinga á flestum sviðum, líka afar flinka stjórnendur fyrirtækja sem og svokallaða „aktívista“ — fólk sem brenni fyrir afmörkuðum málefnum. Aftur á móti fóstri skólarnir ekki upprennandi stjórnmála- og embættismenn í sama mæli og áður og það birtist í sífellt meira vantrausti almennings á hinum ráðandi stéttum. Hinni breiðu húmanísku menntun (í tungumálum, heimspeki og sögu) hafi hnignað og í staðinn hafi komið fram sífellt fleiri fræðigreinar í hug- og félagsvísindum sem hafa sumar mjög afmarkað svið.
Kissinger telur að hefja þurfi klassíska húmaníska menntun aftur til vegs og virðingar. Það er samhljómur með því og orðum franska germanistans, Sylvain Fort, sem ég gerði að umtalsefni á þessum vettvangi fyrir þremur vikum, en í viðtali við Die Welt gagnrýndi Fort það sem hann kallaði hnignun æðri menntunar í Frakklandi þar sem kennsla í tungumálum, jafnt nýmálum sem fornmálum, hefði að stórum hluta verið lögð af — af hugmyndafræðilegum ástæðum. Tungumálin voru talin ala á mannamun, en um tíma hefði sú skoðun átt miklu fylgi að fagna að menn mættu helst ekki skara fram úr. Við bættist að hið djúpa og vitsmunalega ætti ekki endilega upp á pallborðið í okkar samtíma.
Fróðlegt væri að velta því upp hvað kynni að hafa farið aflaga í almennri menntun hér á landi. Er þar að finna rót þessa mikla vanda sem stjórnmálin glíma við? Svo virðist sem sífellt færri þingmenn beri skynbragð á stóru myndina — þess í stað er hjakkað í litlum afmörkuðum málum. Marga skortir hæfni til rökræðna, í þingsölum heyrast jafnvel barnalegar rökleysur. Nefna mætti allnokkur dæmi um forystukreppur íslensku flokkanna á undanförnum árum og sömuleiðis hafa komið fram flokkar án forystumanna, þar sem enginn er formaðurinn meira að segja.
Kissinger á líklega kollgátuna
Max Weber segir í Gesammelte politische Schriften að stjórnmálamaðurinn verði að hafa til að bera þrjá höfuðeiginleika; eldmóð, ábyrgðarkennd og glöggskyggni (Leidenschaft, Verantwortungsgefühl, Augenmaß). En í sama riti kemur fram að það að fást við stjórnmál sé eins og að klappa harðan stein, slíkt vinnst seint en steinsmiðnum megi hvorki þverra móður né gleymast nákvæmnin. Allt hefur þetta verið vel þekkt síðan í fornöld og um aldir gátu fremstu skólar af sér fjöldann allan af afburðarforystumönnum. Það mikla vantraust sem nú ríkir á stjórnmálunum (og að sumu leyti á embættismannakerfinu líka) er skiljanlegt í ljósi þeirrar miklu vanhæfni sem oft blasir við. Og líklega á Kissinger kollgátuna — huga þarf að bættri almennri húmanískri menntun þeirra sem eru að búa sig undir störf í opinberri þjónustu.