fbpx
Laugardagur 14.desember 2024
Eyjan

Kolbrún fer ómjúkum höndum um Sólveigu Önnu – „Það veit greinilega að það er að komast í kvöldfréttirnar“ 

Eyjan
Laugardaginn 18. febrúar 2023 17:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður, segir merkilegt að fylgjast með framgöngu Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, og þess fólks sem hefur hópast í kringum hana. Hún ritar í pistli sem birtist í Sunnudagsmogganum:

„Dag eftir dag höfum við séð í sjónvarpsfréttum fólk með ofstækisfullan baráttuglampa í augum, steyta hnefann og hrópa og góla. Áberandi er hvað þetta fólk er lukkulegt í ofstæki sínu fyrir framan sjónvarpsvélar. Það veit greinilega að það er að komast í kvöldfréttirnar.“ 

Þetta hafi til dæmis sést í myndbandi sem var tekið upp á hóteli í Reykjavík þar sem félagar í Eflingu hrópuðu til hótelgesta, og á myndskeiði sem var tekið upp fyrir utan Ráðherrabústaðinn að þar sem hrópað var að Bjarna Benediktssyni, fjármálaráðherra, en þar var hann meðal annars kallaður rasisti.

„Að sjálfsögðu varð hann helsti skotspónn æsingafólksins enda vel efnaður, í góðu djobbi og býr í Garðabæ. Allt telst það æði tortryggilegt, eins og öllum með heilbrigða stéttarvitund á að vera ljóst.“ 

Hugarheimur Sólveigar Önnu

Kolbrún segir þessa „aðför“ að Bjarna ekki hafa komið á óvart. Það sem hafi komið á óvart var að forsætisráðherra Katrín Jakobsdóttir, hafi tekið á móti „ofstopafólkinu“.

„Gestrisni þykir góður siður á Íslandi en það var einkennilegt að launa þessu fólki svívirðingar í garð fjármálaráðherra með því að bjóða í kaffispjall“

Landsmenn hafi nú fengið skýra mynd af hugarheimi Sólveigar Önnu en Kolbrún telur þann heim vera afritaðan úr Kommúnistaávarpinu. Hún reyni að draga upp andstæður í gráðugum atvinnurekendum og dauðþreyttu vinnuafli.

„Vei þeim sem leyfa sér að rétta upp hönd og segja kurteislega að hér sé um svarthvíta mynd að ræða, atvinnurekendur séu ekki í eðli sínu vondir, það sé ekkert rangt við að vera vel stæður, það geri fólk ekki sjálfkrafa gráðugt og sjálfselskt. 

Jú, vissulega eigi að leggja áherslu á að rétta kjör þeirra sem lægstu launin hafa, og þar komi ýmsar leiðir til greina, en tryllingslegt stéttastríð sé ekki ein þeirra. Þeir sem leyfa sér að impra á slíku eru snarlega sagðir vera á mála hjá „auðstéttinni“ eða þrá að koma sér í mjúkinn hjá henni.“ 

Byltingarlið sem er viðkvæmt fyrir gagnrýni

Kolbrún segir að þetta „byltingarlið“ sé orðljótt en á sama tíma viðkvæmt fyrir því þegar fólk svari þeim. Viðbrögð við gagnrýni sé að ausa svívirðingum yfir gagnrýnendur og vonast til að þagga þannig niður í þeim. Það sé svo merkilegt að að sjá hversu mörgum þyki þær svívirðingar í góðu lagi.

„Þannig eru ýmsir sem þrá að komast í mjúkinn hjá byltingarliðinu og skjalla það ógurlega. Og komast fyrir vikið í fréttir netmiðla.“ 

Kolbrún telur ljóst að Sólveig Anna sé að elta draum um sósíalíska byltingu, en slík bylting verði aldrei að raunveruleika. Sólveig lifi ekki í raunveruleikanum heldur í Kommúnistaávarpinu. Kolbrúnu þykir líklegt að fulltrúum atvinnulífsins þyki erfitt að sitja við samningaborð með henni þar sem hún líti á þá sem sendiherra auðstéttarinnar.

Kolbrún telur að stéttastríð sé ekki lausnin til að bæta kjör þeirra sem verst standa. Almenningur kæri sig ekki um kenningar Karl Marx og þessu ætti Sólveig að átta sig á og hætta „eyðileggingarstarfsemi sinni“.

„Hatrammt stéttastríð er engin lausn til að bæta kjör þeirra verst settu, en þá staðreynd er ekki hægt að hamra inn í höfuð þeirra sem hatast út í atvinnurekendur. Þeir vilja valda sem mestum skaða í samfélagi sem þeir trúa ekki á. Það er hins vegar svo að fólk sem hvað eftir annað gerist sekt um ofstæki fær ekki almenna samúð.“

Byltingarsinnarnir ættu að átta sig á því, hætta eyðileggingarstarfsemi sinni og leitast við að skilja samtímann sinn. Almenningur vill ekki lifa og hrærast í kenningum Karls Marx.“

Hræsnin óborganleg

Þingmaður Pírata, Björn Leví Gunnarsson, vakti athygli á pistli Kolbrúnar á Facebook og sagði hræsnina óborganlega.

„Ó nei, þau eru orðljót! Þá er allt sem þau segja ómögulegt. 

Auðvitað á fólk að vanda til orða en þegar gengið er fram af manni aftur og aftur hækkar maður róminn. 

Það má því segja að þetta sé sjálfskaparvíti þeirra sem hafa vaðið yfir íslenskt samfélag frá því vel fyrir hrun á skítugum skónum – fjárfestum sem hafa rústað húsnæðismarkaði með okri, stjórnvöldum sem hjálpa þeim og fjármálafyrirtækjunum (í eigu ríkisins sem rukkuðu óhóflega vexti). 

Vörn þeirra er svo „ekki vera svona orðljótur, það er ókurteisi“. 

Hræsnin er óborganleg.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

EyjanFastir pennar
Fyrir 5 dögum

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu

Svarthöfði skrifar: Það sem lesa má í rjómaskálina í eldhúsinu hennar Ingu
Eyjan
Fyrir 5 dögum

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast

Orðið á götunni: Mogginn og Sjálfstæðisflokkurinn engjast