Sveinn Waage, fyrirlesari með meiru, hefur í nokkurn tíma boðið félögum og félagasamtökum upp á fyrirlestur sem ber heitið Húmor virkar.
Í lok janúar skrifaði hann skoðanagrein á visir.is sem bar heitið Sólveig Anna og Trump. „Þar sem ég reyndi að tala af einhverju viti um samskipti og traust. Ég tók þar dæmi um tvær manneskjur sem hafa stuðað fólk í samskiptum. Óumdeilanlega. Viðbrögðin voru blendin sem átti ekki að koma á óvart með titilinn: Sólveig Anna og Trump,“ segir Sveinn.
Hann segir greinina um hafa orðið til í kjölfarið á umræðum sem urðu eftir fyrirlestur sem hann flutti stuttu áður. Greinin féll misvel í kramið hjá fólki eins og áður sagði en Sveini fannst ekki annað hægt en að bjóða Eflingu að halda fyrirlesturinn Húmor virkar hjá þeim þar sem hann gæti staðið fyrir máli sínu milliliðalaust.
„Ég átti ekki endilega von á viðbrögðum frá Eflingu. En þau sögðu ekki bara „já“ heldur þökkuðu boðið og buðu mig hjartanlega velkominn,“ segir Sveinn sem hélt fyrirlesturinn í morgun.
Perla Ásgeirsdóttir, framkvæmdastjóri Eflingar, er fyrst til að skrifa athugasemd á vegg Sveins þar sem hún þakkar honum kærlega fyrir komuna.
„Hugsanlega var þetta minn besti fyrirlestur í ár, sérstaklega í ljósi aðstæðna. Húmor opnar dyr og sameinar fólk. Hann bara virkar. P.S. þegar samningar nást um helgina þá vitið þið af hverju, “ bætir Sveinn við léttur í bragði.