Þetta var fjölskylda Heiðrúnar Finnsdóttur, þjálfara og áhrifavalds. Í samtali við DV segir hún að þetta hafi verið hálfgerð bilun en samt skemmtileg upplifun. Hún rifjar upp daginn sem köngulóin kom inn í líf fjölskyldunnar.
„Ég kom heim úr vinnunni og maðurinn minn var að útbúa nesti fyrir börnin,“ segir hún. Heiðrún er gift Þórði Matthíassyni og saman eiga þau tvö börn.
„Hann kallaði á mig og sagði mér að koma og sjá það sem hann væri með. Ég kom og kíkti, þá hafði hann fundið könguló í eplinu. Hann var voða spenntur: „Hún hoppar og allt!““ segir Heiðrún, sem viðurkennir að henni hafi ekki litist nógu vel á blikuna á þessum tímapunkti.
Þórður bjó til búr úr blómavasa handa köngulónni, sem fékk nafnið Stefanía. Það var reynt að veiða flugur fyrir litlu Stefaníu með háfi, sem gekk illa þar sem þetta var snemma vors.
„Þetta var bara brandari. Ég hló mig máttlausa af þessu. Hún týndist hérna í glugganum hjá okkur og við þurftum að leita að henni,“ segir hún.
Börnin þeirra voru mishrifin af köngulónni sem endurspeglaði ágætlega viðbrögð fólks við nýju „gæludýri“ fjölskyldunnar. Sumum fannst Stefanía krúttleg á meðan aðra langaði helst að hlaupa í hina áttina.
„Hún var með svo stór augu,“ segir Heiðrún, sem hallast meira að því að áttfætlingurinn hafi verið krútt.
„Ég var samt mjög fegin þegar hún fór en Þórði fannst það smá leiðinlegt, en það var ekkert annað hægt. Hún var búin að verpa og búa til hreiður,“ segir Heiðrún.
Heiðrún og Þórður fóru til útlanda og þegar þau komu til baka héldu þau að köngulóin væri dauð. Þau urðu ekki vör við neina hreyfingu í búrinu og fannst Heiðrúnu vera kominn tími til að endurheimta blómavasann sinn.
„Svo vaknaði ég einn morguninn og sá einhverja hreyfingu í búrinu. Ég var að vökva en í glugganum voru einnig tómatar og hitaljós, sem voru bara kjöraðstæður fyrir könguló líka. Ég sá Stefaníu á ferð og ég hugsaði: „Nei, andskotinn. Hvernig? Ég hélt þú værir dauð, vinan.““
Heiðrún segir að Þórður hafi farið út að veiða fiskiflugu handa Stefaníu sem át hana með bestu lyst.
„Svo daginn eftir var ég eitthvað að brasa og reyna að taka upp myndband af henni, þá sá ég einhvern pínulítinn svartan punkt á hreyfingu, sem hreyfði sig mjög hratt,“ segir Heiðrún.
Það kom í ljós að Stefanía hafði verpt eggjum, sem voru nú að klekjast, og búrið fullt af köngulóarungum.
„Þær voru svo litlar að þær gátu skriðið í gegnum loftgöngin á búrinu. Við vorum hérna út um alla íbúð að elta köngulóarunga. Þarna dró ég mörkin og sagði að nú þyrfti Stefanía að fara,“ segir Heiðrún hlæjandi.
Þau höfðu samband við Erling skordýrafræðing. „Hann mætti hingað hinn hressasti og tók köngulóna og ungana. Næstu tvo til þrjá dagana vorum við að leita að ungum og fundum nokkra í glugganum. En þetta lifir ekki á Íslandi og allar köngulærnar eru dauðar.“
Heiðrún leyfði fylgjendum sínum á Instagram að fylgjast með ferlinu, það er ennþá hægt að skoða það í highlights eða með því að smella hér.
Sjá einnig: Héldu krúttkönguló sem gæludýri í Kópavogi