Íslenski píanistinn og tónskáldið, Eydís Evensen, gefur út aðra breiðskífu sína ‘The Light’ þann 26. maí næstkomandi í gegnum XXIM Records. Fyrsta breiðskífa hennar ‘Bylur’ naut mikilla vinsælda og sýndi fólki að hún tilheyri hópi fremstu nýklassísku tónlistarmanna. Samanlagt hefur lögum af plötunni verið streymt oftar en 40 milljón sinnum og heldur áfram að telja.
Væntanleg breiðskífa Eydísar, ‘The Light’, endurspeglar þróun hennar og gáfu til þess að skapa tónlist, þar sem hún hefur skrifað, útsett og spilað alla sína tónlist sjálf. Á væntanlegri breiðskífu kemur hún einnig til með að syngja.
Eydís Evensen vitnar í tvö meginöfl á ‘The Light’ sem einkenna breiðskífuna; annars vegar náttúru Íslands og þau áhrif sem hún hefur haft á Eydísi, og hins vegar túlkun Eydísar á von um betri tíma þegar erfiðleikar blasa við henni. Báðir þessir þættir, náttúran og vonin, tákna ljós og birtu. Hið innra ljós sem býr í okkur öllum og náttúrulega birtan sem við Íslendingar þráum á löngum og dimmum vetrum.
‘The Light’ endurspeglar vel tengingu Eydísar við náttúru og veðurfar Íslands og þau djúpstæðu áhrif sem þessi öfl hafa á fólk landsins. Titill eins lags breiðskífunnar, ‘Tephra Horizon’, sem kom út föstudaginn 17. febrúar 2023, vitnar í þau gríðarlegu áhrif sem aska hefur á náttúruna í kjölfar eldgoss. Eydís sótti innblásturinn að þessu lagi þegar hún sá Fagradalsfjall gjósa árið 2021.
Eydís Evensen hefur sótt margar hátíðir víða um Evrópu á liðnu ári, sem dæmi má nefna Reeperbahn Festival, ARTE Concert Festival, Iceland Airwaves og Eurosonic. Hún mun einnig ferðast um Bandaríkin og Kanada seinna á þessu ári í beinu framhaldi af Evróputúrnum hennar í sumar.
Hér fyrir neðan má sjá hvar og hvenær hún spilar í Evrópu í sumar. Næstu tónleikar Eydísar eru hins vegar hér á Íslandi, en þann 24. febrúar næstkomandi heldur hún einlæga og hjartnæma einleikstónleika í Hannesarholti til að halda upp á útgáfu lagsins ‘Tephra Horizon’. Miða má nálgast inn á tix.is.
2. júní – París, Frakklandi
3. júní – Lúxemborg – Chapelle de Lorette
5. júní – Den Haag, Hollandi – Paard
6. júní – Utrecht, Hollandi – Tivoli Vredenburg
7. júní – Brussels, Belgíu – Ancienne Belgique
10. júní – Hamburg, Þýskalandi – Elbphilharmonie
13. júní – Nijmegen, Hollandi – Doornroosje
15. júní – Darmstadt, Þýskalandi – Centralstation
16. júní – Cologne, Þýskalandi – Stadtgarten
17. júní – Berlin, Þýskalandi – Silent Green
18. júní – Leipzig, Þýskalandi – UT Connewitz
21. júní – London, UK – Grand Junction