Davíð Þór Viðarsson, yfirmaður knattspyrnumála hjá FH staðfestir að félagið muni ekki taka yfir Lengjudeildar lið Kórdrengja. Davíð segir að púslin hafi ekki falið vel saman og því hafi FH þurft að draga sig til hlés.
Óvíst er hvað Kórdrengir gera en liðið er skráð til leiks í Lengjudeildinni í sumar, félagið hefur verið að reyna að finna lausnir og samstarf við FH var efst á blaði. Félagið er án þjálfara, hefur fáa leikmenn í sínum leikmannahópi og er án heimavallar.
„Við vorum að skoða þennan möguleika og töluðum við Kórdrengja og forráðamenn þeirra, þetta gekk bara ekki upp,“ segir Davíð Þór við 433.is.
Samkvæmt heimildum hafði FH átti í viðræðum við Ejub Purisevic um að taka við þjálfun Kórdrengja en hann treysti sér ekki í verkefnið.
„Þetta er þannig verkefni að ef þú ætlar að vera með lið í næst efstu deild, mjög ungt lið sem yrði byggt upp á 2 flokks leikmönnum þá þarftu að vera með þjálfara sem þú getur 100 prósent treyst. Við fundum ekki þann mann,“ segir Davíð.
„Samtalið við Kórdrengi var í 3-4 vikur,“ segir Davíð sem er svekktur að FH hafi tekki tekist að láta dæmið ganga upp.
„Ég er svekktur með að þetta hafi ekki gengið upp, ég tel að þetta hefði getað gefið okkur margt. Svo þarf maður að vera raunsær, ef púslin falla ekki saman þá þarf maður að sætta sig við það. Þetta er ekki gott fyrir íslenska knattspyrnu, að vera með þetta í lausu loti svona stuttu fyrir mót. Þú ert með lið sem hefur verið í fyrstu deild í tvö ár og það er ótrúlega leiðinlegt ef Kórdrengir ná ekki að halda áfram. Ég vona innilega að þeir geti fundið lausn á þessu sjálfir,“ segir Davíð sem veit ekki hvað forráðamenn Kórdrengja gera núna.
„Ég hef ekki heyrt í þeim eftir að það kom í ljós að þetta gengi ekki upp hjá okkur.“
Kórdrengir hafa verið í tvö ár í Lengjudeildinni og náð eftirtektarverðum árangri í íslenski deildarkeppni á undanförnum árum. Framtíð félagsins er nú í lausu lofti.
Stærstu félög landsins hafa mörg talað fyrir því að hægt sé að vera með varalið þar sem leikmenn geta bæði spilað í aðalliði og varaliði. Það er ekki hægt í dag þar sem leikmenn geta aðeins verið skráðir í eitt félag.
„Pælingin okkar var sú að við teljum okkur vera með mikið af efnilegum leikmönnum sem eru ekki alveg tilbúnir í efstu deild en hafa svo sannarlega hæfileikana til að verða góðir leikmenn á Íslandi. Við vildum að þeir fengu mjög krefjandi leiki, þar sem við gætum ákveðið hvernig fótbolti yrði spilaður. Yrði eftir okkar hugmyndum og pælingum,“ segir Davíð.
Hann vonast til þess að félögin fari að ræða málin til að bæta hlutina í fótboltanum hér heima.
„Þú getur farið norsku leiðina eða eins og í Belgíu, í Belgíu má varalið fara í næst efstu deild en í Noregi þarf að vera deild á milli. Það er ein leiðin svo er réttmæt spurning um hvort við séum nógu stórt land.
Í Svíþjóð er svo leið þar sem hægt er að fara í samstarf við lið, þá getur þú verið skráður í móðurlið og í samstarfsfélag. Þú getur þá verið á bekknum í úrvalsdeild á sunnudegi og spilað með samstarfsfélagi á mánudegi.
Það þarf að opna almennilega á þessa umræðu, ekki bara á ársþingi KSÍ þar sem umræðan er oft erfið. Félögin eiga að fara í alvöru vinnu við þetta,“ segir Davíð Þór að lokum.