Ekkert verður af samstarfi FH og Kórdrengja, eins og hefur verið í umræðunni.
Þetta kom fram í hlaðvarpsþættinum Dr. Football.
Kórdrengir eru skráðir í Lengjudeild karla en það er orðið nokkuð ljóst að liðið mun ekki leika þar nema annað félag taki þá yfir. Kórdrengi vantar heimavöll, leikmenn og þjálfara. Davíð Smári Lamude hætti sem þjálfari í haust og tók við Vestra. Hann var ansi stór hlekkur í félaginu á bak við tjöldin einnig.
FH reyndi að gera það en nú er orðið ljóst að það mun ekki ganga upp.
Ejub Purisevic hafði verið orðaður við þjálfarastöðuna hjá Kórdrengjum, hefði samstarfið við FH gengið eftir.
Það er útlit fyrir að Ægir taki stöðu Kórdrengja í Lengjudeildinni. Liðið hafnaði í þriðja sæti 2. deildar á síðustu leiktíð. Nú þurfa menn þar á bæ líklega að fara að undirbúa sig fyrir átökin í deild ofar með skömmum fyrirvara.