Manchester City situr á toppi ensku úrvalsdeildarinnar eftir toppslag kvöldsins þar sem liðið vann 3-1 útisigur á Arsenal.
Fyrsta mark leiksins kom á 26. mínútu og á rætur sínar í skelfilegum mistökum Tomiyasu, hægri-bakverði Arsenal.
Tomiyasu fékk boltann úti á hægri kanti vallarhelmings Arsenal, hann á síðan arfaslaka sendingu til baka í áttina að Aaron Ramsdale, sendingu sem Kevin De Bruyne, leikmaður Manchester City komst inn í og kom í netið.
Þannig stóðu leikar allt þar til á 43. mínútu.
Það var á 42. mínútu sem Anthony Taylor, dómari leiksins, benti á vítaspyrnupunktinn og dæmdi brot á Ederson, markvörð Manchester City, sem hann tali hafa brotið á Eddie Nketiah, sóknarmanni Arsenal eftir að hann skaut í átt að marki.
Það var enski landsliðsmaðurinn Bukayo Saka sem steig á vítapunktinn fyrir Arsenal og skoraði af miklu öryggi fram hjá Ederson í markinu. Staðan því 1-1 og reyndist þetta lokamark fyrri hálfleiksins.
Á 56. mínútu leiksins dró svo aftur til tíðinda í leiknum þegar að Gabriel, miðvörður Arsenal gerðist brotlegur innan vítateigs er hann tosaði Erling Haaland niður.
Anthony Taylor, dómari leiksins, dæmdi vítaspyrnu en við nánari skoðun kom í ljós að Haaland var rangstæður í aðdraganda brotsins og því dómurinn afturkallaður.
Það dró þó til tíðinda á 72. mínútu þegar að boltinn barst út að vinstra horni vítateigs Arsenal eftir flott samspil Haaland og Gundogan. Þar var Jack Grealish réttur maður á réttum stað og kom boltanum fram hjá Aaron Ramsdale í marki Arsenal með smá viðkomu í Tomiyasu. Staðan því orðin 2-1 City í vil.
Það kom síðan í hlut hins norska Erling Braut Haaland að gera endanlega út um möguleika Arsenal í leiknum, hann bætti við þriðja marki Manchester City á 82. mínútu.
Þetta reyndist lokamark leiksins sem endaði með 3-1 sigri Manchester City. Þeir hirða toppsætið af Arsenal í ensku úrvalsdeildinni og sitja í því með sama stigafjölda og lærisveinar Mikel Arteta en betri markatölu.
Arsenal situr í 2. sæti en á leik til góða á Manchester City.