Ben Wallace, varnarmálaráðherra Bretlands, sagði þetta í samtali við BBC í gær.
Hann sagði að stríðið hafi reynst Rússum dýrkeypt og að nú sé talið að um 97% af öllum rússneska hernum sé í Úkraínu. Hann benti á að þrátt fyrir þetta hafi Rússum ekki tekist að brjótast í gegnum varnir Úkraínumanna. Þvert á móti virðist rússnesku hersveitirnar eiga í vandræðum með að sækja fram.
„Ég held að til að reyna að sækja fram reyni Rússar að gera það með svipuðum aðferðum og í fyrri heimsstyrjöldinni þar sem árangurinn er mældur í metrum en ekki kílómetrum,“ sagði Wallace.
Ekki er vitað nákvæmlega hversu fjölmennur rússneski herinn er en CIA telur að áður en Rússar réðust inn í Úkraínu hafi um 850.000 hermenn verið í hernum. Af þeim voru um 300.000 landhermenn.
Þessu til viðbótar greip Pútín til herkvaðningar í haust og kvaddi þá 300.000 menn til herþjónustu.
Breska varnarmálaráðuneytið segir að Wagner-málaliðahópurinn sé með um 50.000 menn í Úkraínu.
Ekki er vitað hversu margir rússneskir hermenn hafa fallið í stríðinu en vestrænar leyniþjónustustofnanir telja að í heildina hafi 180.000 til 200.000 rússneskir hermenn fallið eða særst.