Rýmið fékk nafnið „business pad“ hjá parinu sem var iðið við að sýna frá framkvæmdum og undirbúningi á húsnæðinu sumarið 2022 á samfélagsmiðlum. Eignin var hugsuð sem svæði fyrir atvinnurekendur til að leigja og vera með rekstur.
View this post on Instagram
„Okkur langaði að skapa rými fyrir fólk sem er í eigin rekstri og búa til skapandi umhverfi. En margir sem vinna sjálfstætt þekkja það vel að vera „einir“ í vinnunni en með Business Pad viljum við einmitt hafa umhverfið opið og skapandi sem ýtir undir það að fólk hittir annað fólk,“ sagði Gummi í viðtali við Mbl í júlí í fyrra.
Þetta er ekki fyrsta viðskiptaævintýrið sem parið fer í saman. Þau stofnuðu merkið Moxen Eyewear síðasta sumar og gáfu út sólgleraugnalínu.
Fyrirtækjarekstur er þeim báðum vel kunnugur. Lína Birgitta hefur rekið fatafyrirtækið Define The Line í árabil og Gummi – sem er kírópraktor – er eigandi Kírópraktorstöðvar Reykjavíkur. Þau eru einnig bæði vinsæl á samfélagsmiðlum, Lína Birgitta er með tæplega 27 þúsund fylgjendur og Gummi með ellefu þúsund fylgjendur.
Skrifstofurýmið við Krókháls 5 er 258,1 fermetrar að stærð. Eignin skiptist í opið alrými, fimm 15 fermetra skrifstofur, tvær 30 fermetra skrifstofur, tvö baðherbergi, fundarherbergi og eldhús. Ásett verð er 99,9 milljónir.
Gummi greindi frá því að eignin væri til sölu á Instagram fyrr í dag.
„Fullkomið skrifstofuhúsnæði og viðskiptatækifæri. Allt nýtt og innbú getur fylgt með kaupum,“ sagði hann.