Mikel Arteta og Pep Guardiola mætast í kvöld með lið sín, Arsenal og Manchester City, í toppslag ensku úrvalsdeildarinnar. Eftirvæntingin fyrir leiknum er mikil. Báðir stjórar eru á því að sín lið þurfi að eiga sinn besta leik til að sigra.
Arsenal er með 3 stiga forskot á City sem stendur, auk þess að eiga leik til góða. Úrslit leiksins í kvöld verða því afar þýðingarmikil upp á framhaldið.
„Það eru smáatriði sem ráða úrslitum í svona leikjum. Við sáum það á Etihad þegar við töpuðum 1-0 í bikarnum,“ segir Arteta.
„Við verðum að krefjast þess að allir eigi fullkominn leik í 96 mínútur til að sigra þá.“
Arteta segist ekki þurfa að hafa mikið fyrir því að mótivera leikmenn í leik sem þennan. „Hvatningin kemur að sjálfu sér fyrir svona leiki. Það þarf bara að nota orkuna á réttan hátt.“
Guardiola segir mikilvægast að City spili sinn leik.
„Mig langar ekki að missa titilinn af því við spilum ekki eftir getu. Ef þeir sigra okkur af því þeir verða betri þá er það bara íþróttin og ég verð sá fyrsti til að óska þeim til hamingju.
Við munum berjast til að þetta sé í okkar höndum. Við munum berjast fram á síðasta dag.“
Leikurinn hefst klukkan 19:30 í kvöld.