Ríkissaksóknari hefur lagt fyrir lögreglustjórann á Vestfjörðum að taka afstöðu til nýrra gagna í Óshlíðarmálinu. Er þetta í annað sinn sem ríkissaksóknari gerir embættinu það að rannsaka málið frekar.
Kristinn Haukur Jóhannesson lét lífið í bílslysi sem varð í september árið 1973 er leigubíll fór út af Óshlíðarvegi og valt niður hlíðina. Kristinn Haukur var 19 ára gamall. Tvær aðrar manneskjur voru í bílnum, leigubílstjórinn og ung stúlka sem var farþegi. Sluppu þau lítið sem ekkert meitt frá slysinu. Gengu þau frá Óshlíðinni og inn í Hnífsdal, komust í hús þar og tilkynntu um slysið. Kristinn Haukur varð eftir í myrkrinu í Óshlíðinni. Er lögregla kom á vettvang slyssins fannst hann látinn. Leigubílstjórinn og stúlkan eru á lífi enn í dag.
DV fjallaði ítarlega um málið í fyrra.
Ríkissaksóknari segir í ákvörðun sinni núna að í ljósi þeirra upplýsinga sem koma fram í nýjum gögnum telji embættið ekki annað fært en að fella ákvörðun lögreglustjórans úr gildi. Lagt er fyrir lögreglustjórann að taka afstöðu til nýju gagnanna og meta hvort á grundvelli þeirra séu efni til að fram fari frekari rannsóknargerðir í málinu. Sonur Kristins Hauks og bróðir bara barist fyrir því að lögreglan rannsaki hvort andlát Kristins Hauks hafi borið að með saknæmum hætti.
Líkamsleifar hans voru grafnar upp í fyrra og réttarlæknir fenginn til að leggja á áverka og greina hvort Kristinn Haukur hefði hlotið þá í umferðarslysi eða með öðrum hætti. Taldi réttarlæknir ekkert benda til annars en að Kristinn Haukur hefði látist í umferðarslysi. Var rannsókn lögreglu hætt í október í fyrra.
„Svona á ekki viðgangast. Þeir sem hafa skoðað þetta mál með mér segja allir að þessi bíll hafi ekki oltið,“ segir Þórólfur Hilbert Jóhannesson, bróðir Kristins Hauks, í samtali við RÚV í gær. Hann segir nýju gögnin sem ríkissaksóknari vísi til í ákvörðun sinni vera myndir sem hann fann í sumar af bílnum í fjörunni. Segir hann jafnframt lögreglustjórann á Vestfjörðum hafa haft lítinn áhuga á að rannsaka málið.