Fréttablaðið skýrir frá þessu í dag og segir að stuðningur við aðra gjaldmiðla hafi mælst mjög lítill. 6,3% vilja taka upp Bandaríkjadal, 0,3% breskt pund og 1,6% einhvern annan gjaldmiðil.
Blaðið hefur eftir Jóni Steindóri Valdimarssyni, formanni Evrópuhreyfingarinnar, að niðurstöðurnar komi honum ekki á óvart, þær falli vel að þeirri almennu viðhorfsbreytingu sem sé að eiga sér stað hér á landi í Evrópumálum.
„Almenningur er farinn að efast um að þetta fyrirkomulag með krónuna sé það besta. Ástæðurnar eru margar. Fólk horfir á stöðugleikann og fólk horfir á vextina,“ sagði hann.
Hann benti á að stýrivextir hafi hækkað mörgum sinnum í röð og ekki sé að sjá að neitt lát sé að verða á þessari hækkunarhrinu. Einnig benti hann á gríðarlegan kostnað fyrir heimilin og sveitarfélögin vegna vaxtamunar á milli krónunnar og evrunnar.
Aðspurður sagðist hann telja sennilegt að hægt sé að taka upp evru án þess að ganga í Evrópusambandið. „En ég tel að það sé ákaflega óskynsamlegt. Eina leiðin til þess að gera þetta almennilega er að ganga í Evrópusambandið,“ sagði hann.