Áhugaverð umsókn var tekin fyrir á fundi byggingafulltrúa Reykjavíkur fyrir viku, þriðjudaginn 7. febrúar, þar sem sótt var um leyfi til að innrétta kjallara að Hallveigarstíg 1 til gistirekstrar fyrir svefnhylki, en alls á að vera pláss fyrir 140 gesti. Umsókninni var frestað með vísun til athugasemda.
„Hallveigarstígur 1 – USK23010136 Sótt er um leyfi til að innrétta kjallara, rými 01-0001, til gistirekstrar fyrir 140 gesti í svefnhylkjum, í sjö brunahólfum, aðalinngangur um ramp á norðurhlið inn í móttökusal gistirekstrar, í húsi á lóð nr. 1 við Hallveigarstíg. Frestað. Vísað til athugasemda.“
Eigandi húsnæðisins er Magic-Viking ehf., sem er í eigu Kirsten Marie Holmen, sem er einnig eigandi barsins Magic Ice á Laugavegi.
Hallveigarstígur 1 er í hjarta miðbæjarins og gekk fyrr á árum gekk undir nafninu Hús iðnarins. Húsið var byggt árið 1969 og í janúar 1995 opnaði veislusalur í kjallara hússins sem fékk nafnið Gullhamrar, sem stýrt var af Lúðvík Th. Halldórssyni eiganda Veitingamannsins ehf.
Jóhannes Stefánsson, eigandi Múlakaffi, tók síðar við rekstrinum og var salurinn vinsæll undir ýmsa mannfagnaði, brúðkaup, árshátíðir, þorrahlaðborð og fleira. Í öllum auglýsingum var jafnan talað um: Versalir – konunglegir veislusalir við Hallveigarstíg. Síðar var nafninu aftur breytt og bar síðustu ár nafnið Silfursalir.
Áform um 800 fermetra rafíþróttastað
Sumarið 2021 voru birtar fréttir af því að Heimavöllur eSports, sem samanstóð af reynsluboltum í atvinnulífinu hygðust opna 800 fermetra rafíþróttastað undir nafninu Heimavöllur með góðri aðstöðu til æfinga, keppni og skemmtunar í rafíþróttum. Einnig að fyrsti rafíþróttabar landsins verði opnaður í hliðarsal húsnæðisins.
„Spennandi tímar framundan í rafíþróttum! Ákvað að fjárfesta í þessu frábæra verkefni og tók að mér stjórnarformennsku. Ýmsir spennandi snertifletir á því sem við hjá OZ höfum verið með í þróun síðustu árin,“ skrifaði stjórnarformaður félagsins Guðjón Már Guðjónsson, eigandi og framkvæmdastjóri tæknifyrirtækisins OZ, í færslu á Facebook 29. júní 2021.
Ásamt Guðjóni skipuðu stjórnina Melína Kolka Guðmundsdóttir, varaformaður Rafíþróttasamtaka Íslands og stofnandi Tölvuleikjasambands íslenska kvenna, Gestur Pétursson, forstjóri Veitna, Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, og Tryggvi Freyr Elínarson, eigandi og þróunarstjóri Datera.
Ekkert varð þó af þessum áformum, enda heimsfaraldur kórónuveirunnar í gangi með meðfylgjandi samkomutakmörkunum og bönnum, og samkvæmt heimildamanni DV erfitt fyrir fjárfesta að setja yfir 100 milljónir í verkefni í mikilli óvissu um innkomu í óákveðinn tíma.
Í húsnæðinu í dag er meðal annars verslun Krónunnar og veitingastaðurinn Chickpea, sem er með fullt hús eða 5 stjörnur á vef Tripadvisor.
Svefnhylkjagisting áður reynd
Í desember árið 2015 opnaði Galaxy Pod Hostel á Laugavegi 172 og sagði eigandinn í viðtali við Vísi viðbrögðin hafa farið fram úr björtustu væntingum hans og að fólk kæmi jafnvel gagngert hingað til lands til að prófa að sofa í svefnhylki. Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er það lokað vegna framkvæmda.
Skorri Rafn vill breyta skrifstofum í gistirými
Á fundi byggingafulltrúa sama dag var einnig tekið fyrir umsókn um leyfi til að breyta 3. hæð hússins úr skrifstofu í níu herbergi gistiheimili fyrir 18 gesti. Viðbót við fjögur herbergi sem fyrir eru á fjórðu hæð hússins. Umsókninni var frestað með vísun til athugasemda.
„Hallveigarstígur 1 – BN060827 Sótt er um leyfi til að breyta notkun 3. hæðar úr skrifstofu í gististað án veitinga, í flokki II, teg. b., stærra gistiheimili, með níu herbergi fyrir 18 gesti á 3. hæð sem er viðbót við þau fjögur herbergi sem fyrir eru á 4. hæðinni, samtals 13 herbergi í húsi á lóð nr. 1 við Hallveigarstíg. Erindi fylgir yfirlit breytinga unnið á afriti aðaluppdrátta erindis BN057663 og afgreiðslubréf skipulagsfulltrúa dags. 10. mars 2022. Frestað. Vísað til athugasemda.“
Eignarhlutinn á þriðju hæð er í eigu Alva Capital ehf., sem er í eigu Skorra Rafns Rafnssonar, sem var meðal annars stofnandi og fyrrum eigandi Netgíró og Móberg, og hefur setið í stjórnum Inkasso, Netgiro, Heimkaup, Hópkaup, Bland og fleiri fyrirtækja.
Gangi ofangreindir umsóknir munu því heyrast hrotur úr konunglegum kjallara Hallveigarstígs 1 þaðan sem áður barst gleði- og glasaglaumur fram á nótt.