Fréttablaðið hefur eftir Grétari Þór Eyþórssyni, stjórnmálafræðiprófessor við HA, að staða VG virðist bara versna og óvíst sé hversu lengi þetta geti haldið svona áfram. „Þetta getur orðið ógnun við ríkisstjórnarsamstarfið. Þetta er ekki til að bæta baráttuandann innan flokksins,“ sagði hann.
Hann sagði nærtækt að skýra stöðuna með ríkisstjórnarsamstarfinu. Það hafi gengið ágætlega í heimsfaraldrinum en fjarað hafi undan VG. Takmörkuð ánægja sé innan flokksins með útlendingafrumvarp dómsmálaráðherra og ýmsar aðrar ákvarðanir.
Þegar litið er til tekjudreifingar kjósenda þá nýtur VG minnst stuðnings hjá lágtekjufólki, það er fólk með undir 400.000 í mánaðarlaun, eða 2%. Hjá hátekjufólki, sem er fólk með yfir 800.000 krónur á mánuði, nýtur flokkurinn 10% fylgis.