Héraðsdómur Reykjaness dæmdi þann 2. febrúar Sjóvá-almennar til að greiða manni sem lenti í bílslysi árið 2018 rúmlega 18,2 milljónir króna í bætur auk vaxta.
Slysið átti sér stað á Þorláksmessu árið 2018 og var með þeim hætti að bíl var ekið inn í hægri hlið bílsins sem maðurinn ók, en bíllinn var á beygjuakrein. Bíllinn sem ekið var inn í hliðina á bíl mannsins var tryggður lögboðinni ábyrgðartryggingu hjá Sjóvá-almennum.
Þann sama dag leitaði maðurinn til Læknavaktarinnar en hann fann ekki fyrri verkjum strax, var þó stirður í öxlum og herðum og með verk í hægra hné. Verkirnir áttu hins vegar eftir að ágerast og tveimur mánuðum síðar leitaði maðurinn til læknis vegna slæmra verkja. Var það bakverkur og verkir í hálsi, lendhrygg og herðum. Ástandið átti bara eftir að versna og sumarið 2019 leitaði maðurinn til heilsugæslu vegna brjóstverks. Maðurinn leitaði síðan til lögmanna og lækna til að fá afleiðingar slyssins metnar. Matsgerð lá fyrir síðla árs 2020 og segir svo um hana í texta dómsins:
„Þar var því lýst að við áreksturinn hefði stefnandi fengið hliðarhögg og hnykk á sig, skallað dyrakarm vinstra megin og rekið vinstra hné í bílstjórahurð. Stefnandi hefði verið greindur með tognun á hálsi eftir að hann leitaði á Læknavaktina og lýst versnandi verkjum hjá heimilislækni 26. febrúar 2019. Matsmenn töldu orsakatengsl vera á milli slyssins og núverandi einkenna stefnanda frá háls-, brjóstog lendhrygg. Tekið var fram að áreksturinn og útleystir kraftar á bifreið stefnanda virtust ekki hafa verið miklir samkvæmt fyrirliggjandi útreikningum, en að þó hefði orðið allnokkurt tjón á bifreið stefnanda. Það var niðurstaða matsmanna að áreksturinn hefði verið nægur til að valda hnykkáverka á hálsi og baki stefnanda. Tekið var fram að stefnandi hefði lýst einkennum frá hálsi og baki í beinu framhaldi af slysinu og að ekki væri saga um viðlíka einkenni fyrir slysið.“
Sjóvá-almennar neitaði bótaskyldu og vildi rekja áverka mannsins til vinnuslyss sem hann lenti í árið 2008 en þá varð óhapp er hann var að flytja skjalaskáp. Um þetta var tekist á í dómsal og er rakið ítarlega í dómnum en niðurstaða héraðsdóms, var sem fyrr segir, að dæma tryggingafélagið bótaskylt upp á ríflega 18 milljónir króna. Ennfremur þarf tryggingafélagið að greiða ríkinu 1,2 milljónir í málskostnað en maðurinn hafði fengið gjafsókn.