Orkan selur 50% hlut í Íslenska vetnisfélaginu til franska fyrirtækisins Qair. Saman ætla fyrirtækin að taka þátt í uppbyggingu á vetnisstöðvum hringinn í kringum Ísland. Íslenska vetnisfélagið er dótturfyrirtæki Orkunnar og rekur í dag tvær vetnisstöðvar, á Vesturlandsvegi og í Fitjum, Reykjanesbæ. Orkan er eina eldsneytisfyrirtækið sem býður viðskiptavinum vetni. Á næstu árum verða fjórar nýjar vetnisstöðvar teknar í notkun, þær fyrstu í Reykjavík og á Akureyri, næsta stöð þar á eftir er fyrirhuguð á Egilsstöðum og að lokum á Freysnesi. Óhætt er því að segja að orkuskiptin snúi ekki einungis að rafmagni en árið 2026 verður hægt að keyra kolefnishlutlaust hringveginn á vetnisbíl.
Fyrsta vetnisstöðin á Íslandi, sem var jafnframt sú fyrsta í heiminum til að selja vetni á neytendamarkaði, var tekin í notkun árið 2003 og eru um 30 vetnisbílar á suðvestur horninu í dag. Drægni vetnisbíla er umtalsvert meiri en rafmagnsbíla ásamt því sem engin rafhlaða er sem þyngir bílana. Vetnisbílar skila frá sér vatni og eru því kolefnishlutlausir og mikilvægur hlekkur í að draga úr kolefnisfótspori samganga í landinu. Mikill áhugi er fyrir þessum græna valmöguleika, sérstaklega þegar kemur að þungaflutningum þar sem ökutækin munu draga verulega úr kolefnisspori, og er því áætlað að vetnisbílum fjölgi hratt þegar innviðir styrkjast, bæði fólksbílar og flutningabílar.
„Þessi metnaðarfulla uppbygging mun geta valdið straumhvörfum í orkuskiptum í innanlandssamgöngum. Vetnisinnviðir eru forsenda þess að neytendur og fyrirtæki telji raunhæft að fjárfesta í vetnisbílum.“ segir Guðmundur Ingi, framkvæmdastjóri ÍV. „Fyrirtæki eru stöðugt að leita leiða til að draga úr kolefnisspori og með mest 380 km milli vetnisstöðva verður hægt að búa til forsendur fyrir því að loka hringveginum og færa vöruflutninga yfir á kolefnishlutlausa orkugjafa. ÍV er gríðarlega spennt fyrir orkuskiptunum sem framundan eru og að taka þátt í uppbyggingunni á grænum valkostum fyrir neytendur.“ bætir hann við.
Samhliða er búið að tryggja landssvæði á Grundartanga þar sem Íslenska vetnisfélagið mun byggja vetnisframleiðslu í þeim tilgangi að þjónusta vetnisinnviðum með sem bestum hætti.