Þetta er risastór hellir sem var alveg lokaður í um þúsund ár. Inni í honum eru risastórir dropasteinar og ristur eftir klær löngu útdauðra hellabjarna. Segja vísindamenn að hellirinn opni „nýjar dyr að forsögulegum tíma“.
The Guardian skýrir frá þessu og segir að hellirinn hafi fundist í Cueva del Arco sem er hellasvæði í Almadenes gilinu nærri bænum Cieza.
Áður var vitað að forfeður okkar höfðu hafst við á þessum stað fyrir um 50.000 árum. Þetta er einn fárra staða á austanverðum Íberíuskaga þar sem hægt er að sjá ummerki um búsetu Neanderdalsmanna og síðar nútímamanna.
Í tilkynningu frá vísindamönnunum, sem fundu hellinn, segir að þeir hafi strax áttað sig á hversu stór uppgötvun þetta var hjá þeim. Í honum séu sumir hliðarhellarnir allt að 20 metrar á hæð. Dropasteinarnir eigi sér enga hliðstæðu, sumir séu þrír metrar á hæð.
Þá bendi ummerki á veggjum til að hellabirnir, sem dóu út fyrir um 24.000 árum, hafi lifað mun sunnar á Íberíuskaga en áður var talið.