Eftir því sem segir á vefsíðunni Goodhouskeeping þá er það einfaldlega svo að sumt þarf alltaf að þvo í höndum upp á gamla mátann því það má ekki fara í uppþvottavél.
Meðal þessara hluta eru:
Næstum allur eldhúsbúnaður úr tré. Sleifar og aðrir tréhlutir skemmast við að fara í uppþvottavél.
Gamalt postulín þolir ekki að fara í uppþvottavél og sérstaklega ekki ef það er með gylltar brúnir eða handmálað.
Hvítlaukspressa verður ekki hrein við að fara í uppþvottavél. Hvítlaukur er klístraður og festist í götum og raufum. Það þarf því að þvo hvítlaukspressur í höndum.
Ekki setja flöskur og krukkur, með miðum á, í uppþvottavél. Pappírsmiðarnir losna af og safnast saman í síunni og geta þannig stytt líftíma vélarinnar.
Öll eldhúsáhöld, sem eru úr áli, þarf að þvo í höndum ef þú vilt koma í veg fyrir að þau verði mislit.
Kristalsglös og skálar eiga ekki að fara í uppþvottavél. Hár hitinn í vélinni fer illa með kristal og gerir hann mattan.
Ef matur hefur brennt sig fastan við eldhúsáhöld þá verða þau ekki hrein við að fara í uppþvottavél. Það þarf að þvo þau í höndum og nota krafta og þolinmæði til að takast á við þau.
Almennt er ekki gott að setja beitta hnífa í uppþvottavél því þeir geta valdið tjóni á vélinni og þess utan hefur þvotturinn neikvæð áhrif á bit þeirra.