„Ég er loksins að verða fullorðinn, kannski ég fari að ná að safna í skegg, segir Þórhallur Þórhallsson,“ uppistandari, vitleysingur og pabbi, eins og hann lýsir sér sjálfur.
„Ég er ekki viss en mér hefur ekki tekist að safna hingað til en það hlýtur að koma þegar maður er orðinn fertugur. Nú verð ég fúlskeggjaður og fæ hugsanlega bringuhár, verð jafnvel silfurrefurinn Þórhallur.
Kannski ég fari að nota það sem sviðsnafn: Silfurrefurinn Þórhallur!“
Hann virðist nokkur spenntur fyrir hugmyndinni. En það er aldrei að vita með Þórhall.
En það er nú ekki alveg komið að skeggi og bringuhárum því Þórhallur verður ekki fertugur fyrr en 24. mars, auk þess sem hann á 20 ára uppistandsafmæli um svipað leyti.
„Af því tilefni verð ég með tvær mismunandi sýningar. Þann 23. febrúar verður roast á Gauknum, sem ég snaraði yfir á íslensku sem grill, og fyrir þá sem ekki þekkja til, gengur það einfaldlega út á að vinir manns koma og tala illa um mann.
Taka mann ærlega í gegn.“
„Mér finnst mjög gaman að þessu formi, það hefur ekki verið mikið um þetta á Íslandi, og þetta er ekki fyrir viðkvæma, enda oft farið langt yfir strikið á svona kvöldum.“
Aðspurður hvort Þórhallur fari hugsanlega að skæla segist hann halda ekki.
„En það er samt aldrei að vita. Kannski verð ég vælandi uppi á sviði? En þetta eru nánir vinir og við höfum tekið snúning á grillun, þó ekki opinberlega og mér finnst þetta alltaf jafn fyndið. Ég hlakka bara til.
Síðan verð ég með sýningu 9. mars í Sykursalnum, sem er í VERU, mathöll Grósku, og sérhannaður fyrir uppistand.“
„Nú erum við að fá alvöru uppistandsklúbbastemmningu, eins og best gerist í útlöndum. Þá eru liðin 20 frá því ég var með uppistand í fysta skipti á ævinni.
Pældu í því, ég er búin að vera að gera þetta hálfa ævina.“
Í ofanálag er Þórhallur með hlaðvarp með Arnóri Daða, grínista með meiru að norðan, sem heitir Látt’ekki Svona.
Í einlægu viðtali sem birtist við Þórhall þann 1. maí fyrra sagði hann frá því að hann ætti von á barni með kærustu sinni, Kristínu Önnu Thorlacius Jensdóttir.
Sjá: Þórhallur er meira en bara sonur Ladda – ,,Er kannski óttalega vitlaus og leiðinlegur“
Þá sagði Þórhallur að hann væri spenntur, stressaður og bara allt….
„Ég hélt að þetta yrði ekki mitt hlutverk í lífinu. Ég hafði svo sem reynt eða ekki reynt, taldi að það sem myndi gerast myndi gerast.“
„En ég er orðinn 39 ára og það er alveg kominn tími til. Áður fyrr var ég ekki tilbúinn til að takast á við þessa ábyrgð en núna ætla ég að verða eins góður pabbi og ég get,“ sagði Þórhallur í fyrra.
„Ég verð örugglega skemmtilegi pabbinn, alltaf að grínast og fíflast, en ég ætla líka að vera alvarlegri pabbinn, eða að minnsta kosti að reyna það svo það lendi ekki alltaf á mömmu að skamma.“
Og nú er komið að því að láta á það reyna.
Fimmtugsaldurinn að skella á og Kristþór Rúnar kominn í heiminn, orðinn sjö sjö og hálfs mánaða gamall.
Nafnið er samsett úr nöfnum foreldranna, Kristínar og Þórhalls.
Þórhallur er hæstánægður með þróun mála og þróun þroska.
„Það er æðislegt að vera orðinn pabbi. Maður var kannski svolítið seinn í þessu en ég held að ég hafi ekki haft þroskann fyrr og barnið komið á hárréttum tíma. En nú er þroskinn kominn.”
Og vel það, því Þórhallur og Kristín Anna eru einlægir stuðningsmenn taubleyjunotkunar og segist Þórhallur standa sig meistaralega á bleyjuvaktinni
„Ég er meira en pabbi, ég er umhverfisvænn taubleybjupabbi og stend mig afspyrnuvel við að skola bleyjur öll föstudagskvöld í stað þess að skola skítinn af sjálfum mér. Ég gæti ekki verið ánægðari.“
Hann viður kennir að það sé aftur á móti fínt að fá sér sveitta pizzu eða hamborgara til að verðlauna vel unnin störf.
Það er sem sagt misskilningur að taubleyjufólk sé almennt einnig vegan.
Þórhallur segist þó hafa verið stressaður og margir vinir hans hafa fullyrt að hann myndi gefast upp á þvotti á skítableyjum.
„Neibbs, ég er enn í taubleyjuliðinu og kann vel við mig þar. Þetta er miklu einfaldara en ég hélt og öll fjölskyldan er kominn á kaf í taubleyjubisnessinn enda stofnaði frúin verslun, taubleyjur.is.“
Það kallar maður sannkallaðan taubleyjueldmóð.
Hvernig er að vera orðinn pabbi?
„Ég sá fyrir mér endalausan grát og öskur og svefnlausar nætur. En þessi litli strákur er svo ljúfur, sofnar brosandi, sefur með mér út og vaknar brosandi. Algjör sólargeisli.“
Enda genetískur húmor i litla manninum.
Sjálfur átti Þórhallur að mörgu leyti erfiða æsku, barðist við kvíða, sem var ástand sem lengi vel var ekki rætt og þá síst hjá börnum. Það lýsti sér best í því að hann mátti ekki af mömmu sinni sjá, alltaf i þeirri trú að hún gæti horfið.
Í skóla var Þórhallur stimplaður sem óalandi óþekktarormur sem lék trúðinn, þá sjaldan sem hann yfirleitt mætti í skóla enda leið honum illar þar.
„En kvíðinn er líkamlegur, mér var alltaf flökurt og leið illa og komst því upp með að mæta ekki í skólann.“
Þórhalli leið aldrei vel innan um annað fólk en fann töfralausnina þrettán ára gamall þegar hann smakkaði áfengi.
Hann fór að drekka um hverja helgi og eignaðist eldri kunningja sem flestir voru byrjaðir að fikta við vímuefni og fetaði hann í þeirra fótspor. Við tók neysla á grasi, amfetamíni, kókaíni og e-töflum.
„Þetta var allt deyfing á kvíðann og ég fann aldrei til löngunar í áfengi eða vímuefni þegar ég var einn.“
„Ég var í þessu til að geta umgengist fólk. Ef þú ferð út í þetta veistu í raun aldrei hvert það leiðir þig en ég er svo heppinn að fíknin var aldrei sterk í mér. Ég á marga vini frá þessum árum sem eru dánir því þetta var of mikið fyrir þá. Ég var mjög gæfusamur að þetta fór ekki verr en ég hef séð á eftir fólki í dauðann.“
Þórhallur náði að fela ástandið vel en var þó sendur í ráðgjöf af foreldrum sínum. Hann náði að kjafta sig úr út henni.
„Ég var sagður klár strákur sem engin ástæða væri til að hafa áhyggjur af.“
Hann hellti sig aftur á móti blekaðan af landa það sama kvöld.
Þórhallur sagði í sama viðtali að fíknin hefði aldrei verið ráðandi og kúplaði sig út úr öllu slíku 17 ára gamall.
Og nú tekur við ábyrgð uppalandans sem Þórhallur tekur fagnandi.
Margir grínistar djóka með það að barneignum fylgi fullt af nýju efni og bröndurum.
„„Til hamingju með nýju fimmtán mínúturnar af uppistandsefni!“ heyrði maður reglulega. Og ég geri ráð fyrir að næstu sýningar verði mjög litaðar af föðurhlutverkinu.“
Hvað hefur nú helst breyst á tveimur áratugum Þórhalls af gríni?
„Ég er mun betri, öruggari og fyndnari í dag. Ég er reynslumeiri, farinn að gera þetta á ensku erlendis og hokinn af reynslu.
Það var engin sena, þannig séð þegar ég var að byrja. Það var fyndnasti maður Íslands sem ég náði að vinna, en í dag er þetta allt öðruvísi, miklu fleiri að prófa. Bæði þeir sem eru að koma fram svo og áhorfendur sem farnir eru að mæta reglulega á uppistand.
Það voru nokkrir á undan mér en ekki margir, uppistandssenan var í raun enn í bleyju þegar ég mætti á svæðið.“
Taubleyju kannski? En það er ekki spurt, nóg um þær í bili.
„Húmorinn hefur breyst, tímarnir breytast og húmorinn með. Það sem var fyndið þá er það ekki í dag en í grunninn er fyndið bara fyndið.
Fólk er kannski aðeins nærgætnara í dag en ég hef aðallega gert grín að sjálfum mér. Ég hef ekki enn náð að særa sjálfan mig, en það er aldrei að vita,“ segir Þórhallur Þórhallsson, uppistandari, vitleysingur og pabbi.