Stjórn KSÍ ákvað á fundi sínum 9. febrúar að fela framkvæmdastjóra KSÍ að kanna mögulega leikstaði erlendis sem valkosti fyrir heimaleiki A landsliða Íslands ef til þess kemur að liðin þurfi að leika í umspilsleikjum í febrúar/mars á næstu árum.
KSÍ hefur þegar upplýst UEFA um bókun stjórnar og stöðuna.
Legið hefur fyrir í nokkurn tíma að umspilsleikir A landsliðs karla séu leiknir í marsmánuði (heima og/eða heiman) og skemmst er að minnast EM-umspilsleiks sem karlaliðið átti að leika við Rúmeníu á Laugardalsvelli í mars 2020, sem ekki varð þó af vegna Covid-faraldursins. KSÍ hafði lagt í umtalsverðan kostnað við að undirbúa leikinn og gera Laugardalsvöll leikhæfan þegar leikurinn var blásinn af.
UEFA kynnti nýverið nýtt fyrirkomulag keppna A landsliða kvenna og hefur Þjóðadeild verið sett á laggirnar, líkt og er í keppni karlalandsliða. Í nýja fyrirkomulaginu eru á dagskrá umspilsleikir í febrúar (heima og heiman) og hafi það þótt ærið verkefni að gera Laugardalsvöll leikhæfan í mars ár hvert miðað við núverandi ástand leikvangsins, þá er ljóst að febrúar er enn erfiðara verkefni.
Til upprifjunar er rétt að nefna að Laugardalsvöllur er opinn leikvangur (án þaks), með litlu sem engu skjóli fyrir veðri og vindum, og leikflöturinn er ekki með hitakerfi.
Bókun stjórnar KSÍ frá fundi 9. febrúar:
Vegna möguleikans á að A landslið karla leiki umspilsleiki í mars og að A landslið kvenna leiki umspilsleiki í febrúar á komandi árum hefur stjórn KSÍ ákveðið að fela framkvæmdastjóra að kanna mögulega leikstaði erlendis sem valkosti fyrir heimaleiki A landsliða Íslands ef til þess kemur. Markmiðið er vissulega alltaf að liðin komist beint í lokakeppni (eða forðist fall um deild í Þjóðadeild, ef við á) án þess að þurfa að leika í umspilsleikjum, en rétt er að huga að undirbúningi og kanna fýsileika annarra valkosta ef til þess kæmi að það markmið næðist ekki og að leiðin í lokakeppni (eða að forðast fall) verði í gegnum umspilsleiki í mars eða febrúar.