Dagur neyðarnúmersins – 112 dagurinn – verður haldinn hátíðlegur á morgun, laugardaginn 11. febrúar. Þann dag verður Neyðarlínan ásamt samstarfsaðilum sínum, sem eru helstu viðbragðsaðilar í landinu, með viðburð í Hörpu til að vekja athygli á deginum, en 112 dagurinn er samevrópskur dagur neyðarnúmersins.
Yfirskrift dagsins að þessu sinni er „Hvað get ég gert?“ og er ætlunin með því að vekja fólk til vitundar um hvernig það getur brugðist við þegar neyðarástand skapast, svo sem þegar komið er að slysi, einhver nærstaddur veikist skyndilega, eldur brýst út og svo framvegis.
Samkomusalurinn Flói sem er á 1. hæð Hörpu verður opinn almenningi frá kl. 10.00 til 16.00, en þar verða ýmsir viðbragðsaðilar með kynningu á starfsemi sinni, ásamt því að sýna rétt neyðarviðbrögð við ýmiss konar aðstæður. Þá verða margvísleg tæki og tól sem þessu tengjast til sýnis, bæði innan og utandyra.
Formleg dagskrá 112 dagsins hefst í Flóa kl. 13.00 með ávarpi Jóns Svanbergs Hjartarsonar, framkvæmdastjóra Neyðarlínunnar. Þá mun Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra flytja ávarp og að því loknu verður hópi barna afhent verðlaun í Eldvarnargetraun Landssambands slökkviliðsog sjúkraflutningamanna. Síðan verður tilkynnt um útnefningu Skyndihjálparmanneskju ársins, en það er Rauði krossinn sem hefur veg og vanda af vali hans. Loks verður frumflutt nýtt lag, 112 lagið, sem væntanlega mun slá í gegn. Veitt verða verðlaun í Sexunni sem er stuttmyndasamkeppni fyrir ungt fólk í 7. bekk um mörk og samþykki, en einnig um tilurð, birtingarmyndir og afleiðingar stafræns ofbeldis. Þá mun dómsmálaráðherra tilkynna um samning ráðuneytisins og Neyðarlínunnar um fjármögnun Ofbeldisgáttarinnar til framtíðar.
Þau ávörp sem flutt verða við þetta tækifæri verða túlkuð á táknmál, en á 112 deginum, 11. febrúar er einnig haldið upp á Dag íslenska táknmálsins.
Auk Neyðarlínunnar taka lögreglan, slökkvilið, sjúkraflutningar, Rauði krossinn, Slysavarnarfélagið Landsbjörg og fleiri þátt í viðburðum dagsins sem miða að því að vekja almenning til vitundar um hvernig bregðast eigi við neyðarástandi af ýmsum toga, til viðbótar því að hringja í 112.
Tækjabúnaður til sýnis fyrir gesti
Meðal þess sem fyrir augu gesta ber er margvíslegur tækjabúnaður viðbragðaðila, bæði í Flóa, en einnig utandyra, framan við Hörpu. Meðal þess sem almenningi gefst kostur á að skoða á 112 deginum eru meðal annars björgunarsveitarbílar og -tæki, lögreglubíll, lögreglumótorhjól sem og annar búnaður frá lögreglu, slökkviliði og sjúkraflutningum svo nokkur dæmi séu nefnd. Neyðarverðir frá Neyðarlínunni verða á staðnum og munu kynna 112 Appið, Rauði krossinn mun sýna réttu handtökin við skyndihjálp og opna fjöldahjálparstöð fyrir gesti og gangandi,
Þá verður spurningaleikur í gangi sem styður við þema dagsins „Hvað get ég gert?“, en með þátttöku í honum á fólk að geta áttað sig betur á því hvernig bregðast skuli við neyðarástandi af ýmsu tagi. Leikurinn verður aðgengilegur í síma. Nöfn úr hópi þátttakenda verða dregin út og hljóta hinir heppnu verðlaun sem tengjast viðbrögðum við neyðarástandi af ýmsum toga.
Öll eru velkomin í Hörpuna á 112 deginum og aldrei er að vita nema ein af þyrlum Landhelgisgæslunnar verði á sveimi í nágrenninu.