Íslenski landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson, leikmaður enska B-deildar liðsins Burnley verður til viðtals í Íþróttavikunni með Benna Bó í kvöld.
Tyrkneski leikmaðurinn Halil Dervisoglu er liðsfélagi Jóhanns Bergs hjá Burnley og segir íslenski landsliðsmaðurinn í þætti kvöldsins að hann og liðsfélagar Halil hjá Burnley hafi tekið utan um og rætt við Tyrkjann í kjölfar ástandsins í Tyrklandi sem skapaðist vegna stórra jarðskjálfta sem gengu yfir landið og Sýrland.
„Við spurðum hann út í þetta,“ sagði Jóhann aðspurður hvernig Halil væri stemmdur þessa dagana í ljósi alls. „Hann er ekki frá þeim hluta Tyrklands sem lenti hvað verst í þessum jarðskjálftum. Það var engin úr fjölskyldu hans eða vinahópnum sem lenti í þessu, sem var auðvitað gott fyrir hann.
En auðvitað er þetta hræðilegur atburður sem átti sér stað, atburður sem setur hlutina í samhengi. Maður er stundum að kvarta yfir ýmsum hlutum og sér síðan eitthvað í líkingu við þetta og þarf þá að hugsa aðeins inn á við, hætta þessu tuði.“
Þátturinn er á dagskrá Hringbrautar klukkan 21 í kvöld.