Samúel Samúelsson, formaður meistaraflokksráðs Vestra, segir í samtali við Fréttablaðið í dag að félagið þurfi bætta aðstöðu til knattspyrnuiðkunnar hið snarasta.
Sem stendur er eitt óupphitað gervigras á svæði Vestra, sem og keppnisvöllurinn, þar sem undirlagið er gras.
„Það er löngu orðið tímabært að fá bætta aðstöðu. Við erum búin að vera öll þessi ár með enga vetraraðstöðu en nú er staðan bara þannig að við getum alveg eins lagt niður fótboltaliðið ef við fáum ekki betri aðstöðu,“ segir Samúel.
„Við getum ekki ætlast til að allir séu í þessu af öllu hjarta, leikmenn, þjálfarar, stuðningsmenn og styrktaraðilar, þegar við getum ekkert æft. Þetta er eins og að vera með fullt af fiski en ekkert frystihús til að vinna hann í.“
Samúel segir Vestra, sem keppir í Lengjudeild karla, ekkert geta æft fótbolta á svæði sínu yfir veturinn. Það sé grafalvarlegt mál.
„Það segir sig sjálft að undirbúningurinn hjá Vestra yfir þessa mánuði er fótboltalega enginn. Menn geta hlaupið og lyft en fótboltalega er hann enginn. Það er gríðarlega slæmt. Það er aldrei neitt óraunhæft. Það er allt hægt. En þetta hjálpar okkur ekkert, að vera ekki með aðstöðu. Í mikilli hreinskilni sagt er það erfitt að vera með fótboltalið sem æfir helminginn af árinu og ætlast til að það keppi við lið sem æfa allt árið. Það skerðir möguleika okkar mikið.“
Ísafjarðarbær ætlar að ráðast í framkvæmdir á gervigrasi á keppnisvelli Vestra fyrir tímabilið 2024. Samúel segir að það þurfi þó að gera af heilum hug.
„Við erum í engu betri stöðu ef við fáum gervigras sem er ekki upphitað. Þetta eru eðlilegar kröfur, að þetta sé eins og hjá öðrum, það sé upphitað, vökvunarbúnaður í því og slíkt til að það sé hægt að sinna þessu almennilega.“
Ítarlega er fjallað um málið í Fréttablaðinu.