Knattspyrnudeild Víkings hefur samþykkt tilboð norska 1. deildar félagsins Fredrikstad FK í Júlíus Magnússon, þetta staðfestir Víkingur Reykjavík í yfirlýsingu á heimasíðu félagsins en Júlíus skrifar undir þriggja ára samning í Noregi með möguleika á árs framlengingu.
Júlíus Magnússon er uppalinn Víkingur en fór í atvinnumennsku aðeins 16 ára gamall til hollenska félagsins Heerenveen. Hann kom aftur í Víkina árið 2018 þá 20 ára gamall og stimplaði sig strax inn sem lykil leikmann og átti stóran þátt í velgengi undanfarinna ára með liðinu.
Júlíus hefur orðið bikarmeistari þrisvar sinnum með Víkingi og varð Íslandsmeistari með liðinu árið 2021.
„ Í fyrra var þessi magnaði leikmaður gerður að fyrirliða og leiddi hann Víking til velgengni í evrópukeppni, til bikarmeistaratitils auk þess sem liðið varð Meistari meistaranna.
Júlíus er mikil fyrirmynd innan sem utan vallar og kveður Víkingur þennan frábæra dreng með miklum söknuði en óskar honum á sama tíma velfarnaðar á nýjum vettvangi.“
Júlíus mun spila í treyju númer 19 hjá Fredrikstad og tekur þátt í sinni fyrstu æfingu með liðinu á morgun. Þá gæti hann leikið sinn fyrsta leik fyrir félagið á laugardaginn næstkomandi þegar Fredrikstad mætir Mjöndalen.
Kveðjuviðtal sem Júlíus fór í hjá Víkingum á þessum tímamótum má sjá hér fyrir neðan: