Þann 25. janúar var maður, sem fæddur er árið 1965, dæmdur í 9 mánaða fangelsi og til sviptingar ökuréttar ævilangt, fyrir tvö umferðarlagabrot sem snúast um akstur undir áhrifum áfengis. Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjaness.
Dómurin er sem slíkur ekki fréttnæmur en gífurlega langur brotaferill mannsins vekur athygli. Hann var fyrst sakfelldur fyrir brot árið 1982. Í frétt á Vísi árið 2006 var hann þegar skilgreindur sem síbrotamaður en þá hlaut hann þungan dóm, fimm ára fangelsi fyrir þjófnað, skjalafals, nytjastuld og fíkniefnabrot.
Á árunum 1982 til 1992 var maðurinn dæmdur fyrir 14 hegningarlagabrot en virðist ekki hafa brotið af sér í nokkur ár þar til árið 2000 er hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi. Árið 2001 hlaut hann dóma fyrir líkamsárásir, þjófnaði og umferðarlagabrot. Honum var veitt reynslulausn árið 2005. Hann rauf það skilorð með þeim afbrotum sem hann var dæmdur fyrir árið 2006.
Í dómi héraðsdóms segir að langur brotaferill mannsins sé honum til refsiauka sem og sú staðreynd að hann hefur gengist undir fjölmargar sektargerðir vegna ökulagabrota sinna undanfarin misseri. Einnig kemur fram að hann hlaut tvo dóma í Danmörku árið 2020 og fékk reynslulaun þar. „Með dómi í Danmörku var ákærði dæmdur í 7 daga fangelsi og hlaut hann 6 ára innkomubann fyrir frelsissviptingu og óréttmæta vörslu farsíma. Loks var ákærði með dómi í Danmörku dæmdur í 1 árs fangelsi og hlaut hann 6 ára innkomubann fyrir brot gegn útlendingalögum,“ segir um þetta í dómi héraðsdóms.