Spænska stórveldið Real Madrid hefur tryggt sér farseðilinn í úrslitaleik Heimsmeistaramóts félagsliða sem fer fram í Marokkó þessa dagana. Madrídingar unnu 4-1 sigur á Al Ahly í undanúrlslitaleik kvöldsins.
Real Madrid komst í stöðuna 2-0 með mörkum frá Vinícius Júnior og Federico Valverde í fyrri hálfleik áður en Ali Maaloul minnkaði muninn með marki úr vítaspyrnu á 65. mínútu.
Á 87. mínútu fékk Real Madrid vítaspyrnu þegar brotið var á Vinicius Júnior. Luka Modrix steig á vítapunktinn en brást bogalistin þegar markvörður Al Ahly varði spyrnuna.
Leikmenn Real Madrid létu það hins vegar ekki á sig fá og bættu við tveimur mörkum fyrir leikslok. Þau mörk skoruðu Rodrygo og Sergio Arribas.
Real Madrid mun mæta Al-Hilal frá Sádi-Arabíu í úrslitaleiknum.