Framkvæmdastjóri jamaíska knattspyrnusambandsins segir að það sé undir þjálfara landsliðsins, Heimi Hallgrímssyni komið hvort reynt verði að sannfæra Mason Greenwood um að leika fyrir landsliðið.
Frá þessu greinir Dennis Chung, framkvæmdastjóri jamaíska knattspyrnusambandsins í samtali við Jamaica Observer og segir að sambandið muni bjóða Greenwood velkominn vilji hann spila fyrir landsliðið Jamaíka.
Greenwood er leikmaður Manchester United en á dögunum voru ákærur á hendur honum, er sneru meðal annars að tilraun til nauðgunar, líkamsárásar og stjórnandi hegðunar gegn fyrrverandi kærustu hans, látnar niður falla á.
Greenwood hefur hvorki æft né spilað með Manchester United síðan að hann var handtekinn í janúar á síðasta ári. Þá er ljóst að sú verður raunin áfram en Manchester United hefur sett af stað innri rannsókn þar sem ákvarðað verður hvað framtíð leikmannsins hjá félaginu ber í skauti sér.
Greenwood á aðeins að baki einn A-landsleik fyrir Englands hönd, sá leikur var gegn Íslandi. Þar með getur hann enn leikið fyrir önnur landslið sem hann er gjaldgengur í. Leikmaðurinn hefur tengingu við Jamaíka og hafa forráðamenn jamaíska knattspyrnusambandsins reynt í nokkur skipti til þess að fá hann yfir í jamaíska landsliðið.
„Við myndum ekki útiloka hann,“ sagði Dennis Chung, framkvæmdarstjóri jamaíska knattspyrnusambandsins í samtali við Jamaica Observer.
„Þetta er hins vegar ákvörðun sem þjálfari liðsins myndi þurfa að taka. Ef þjálfarinn telur að hann ætti að verða valinn í landsliðið, þá er það ákvörðun sem liggur hjá honum einum. Hann (Greenwood) er aðeins 21 árs og á bjarta framtíð fyrir höndum sér. Ég tel að hann myndi bæta hvað lið sem er.“
Greenwood sé saklaus maður, að mati Chung, eftir að allar ákærur gegn honum, sem sneru meðal annars að tilraun til nauðgunar, líkamsárásar og stjórnandi hegðunar gegn fyrrverandi kærustu hans, voru látnar niður falla á dögunum.
„Hann hefur verið sýknaður af dómstólum, og ef hann hefur verið sýknaður af dómstólnum þá þýðir það að hann er ekki sekur. Þess vegna er það undir þjálfurunum komið hvort hann verður valinn eður ei.“
Íslendingurinn og Eyjamaðurinn Heimir Hallgrímsson er núverandi landsliðsþjálfari jamaíska landsliðsins.